Íslenskt lið flýgur til Bretlands að keppa

Leikmenn Dusty. Frá vinstri: Midgard, leFluff, Bjarni, EddezeNNN og Thor.
Leikmenn Dusty. Frá vinstri: Midgard, leFluff, Bjarni, EddezeNNN og Thor. Ljósmynd/Dusty

Rafíþróttaliðið Dusty flýgur til Bretlands á fimmtudaginn til þess að taka þátt í erlendu LAN-móti, EPICLAN til þess að keppa í fyrstu persónu skotleiknum Counter-Strike:Global Offensive.

Verður það í fyrsta skiptið sem liðið tekur þátt í LAN-móti erlendis og hefst mótið á föstudaginn þann 29.október og lýkur sunnudaginn þann 31.október.

Fyrsta skiptið sem keppt er á LAN-móti erlendis

„Það verður æðislegt að komast loksins út á mót. Það hefur verið markmiðið hjá þessu liði síðan það var fyrst búið til og epiclan er algjörlega besti byrjunarreiturinn fyrir það!“ Segir Árni Bent, einnig þekktur sem leFluff í samtali við mbl.is.

Dusty hefur tekið þátt í þessu móti tvisvar sinnum áður og segir Árni liðið hafa góða reynslu af þessu móti en í bæði skiptin sem liðið tók þátt þurftu leikmenn að spila að heiman frá sér vegna Covid.

Stefna á sigur

„Markmiðið í þetta skipti er sigur, ekki meira né minna. Ég held að undirbúningurinn muni skila sér, og að við eigum góðan séns í að komast langt í þessu móti,“ segir Árni en liðið endaði í þriðja sæti í bæði skiptin sem það hefur tekið þátt í mótinu.

Miðgarðsormurinn mun ekki taka þátt í mótinu svo í stað hans spilar þjálfari liðsins, cloverf1eld.

Spila þá Bjarni, leFluff, EddezeNNN, Thor og cloverf1ield fyrir hönd Dusty á mótinu.

Vel undirbúnir

„Við höfum aldrei verið betur undirbúnir! Það er búin að vera nokkurra vikna pása núna á milli tímabila og við höfum verið að nota hana til þess fyllsta við að undirbúa okkur fyrir komandi tímabil.“

Góður undirbúningur hefur skilað Dusty góðum árangri í ESEA Main en þeir eru nú á sjöunda tímabili sínu í þeirri mótaröð og nú þegar komnir með tvo sigra þrátt fyrir að einungis vika sé liðin frá því að mótaröðin hófst.

Nánari upplýsingar um mótið má finna hér og eins má fylgjast með mótinu í beinu streymi á Twitch rás EPICLAN.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert