Frægur lýsandi lýsti íslensku móti

Ljósmynd/Aðsend

James Bardolph, frægur Counter-Strike lýsandi og listrænn stjórnandi í fyrirtækinu FACEIT, lýsti The Machines Arena mótinu sem átti sér stað fyrr í mánuðinum í Kópavogi í Arena ásamt Kristjáni Einari og Tómasi Jóhannssyni.

Telur leikinn hafa eitthvað að bjóða öllum

Bardolph hefur spilað The Machines Arena og spilaði meðal annars við þá sem hönnuðu leikinn. Hann segir í samtali við mbl.is að þeir hafi gjörsigrað sig en Bardolph spilar venjulega fyrstu persónu skotleiki eins og Counter-Strike eða þriðju persónuleiki eins og Grand Theft Auto.

„Í Counter-Strike getur þú spilað árásagjarnan einleik en í The Machines Arena þarftu að spila með liði sem heild. Þú getur ekki farið og gert eitthvað á eigin spýtum, þá verður þér bara eytt. Og mér var eytt,“ segir Bardolph en hann telur The Machines Arena hafa eitthvað að bjóða flestum spilurum og er þar af leiðandi mjög aðgengilegur leikur.

Í röð frá hægri standa Kristján Einar, James Bardolph og …
Í röð frá hægri standa Kristján Einar, James Bardolph og Tómas Jóhannsson. Skjáskot/Twitch/FACEIT

Þroskandi að fara út fyrir þægindarammann

Bardolph segir að það sé gott og endurnærandi að fara út fyrir þægindarammann og spila leiki sem hann er ekki vanur, því það gerir þig að reynslumeiri leikmanni. Hann segir einnig að leikurinn sé skemmtilegur og einkennist af hraðri spilun.

„Það var flott að fylgjast með því hvernig lið með mismunandi hæfni spiluðu. Við sáum strax mjög sterk lið á móti ekki svo sterkum liðum en það sýndi að ef þú ert tilbúinn að leggja vinnuna á þig þá getur þú náð yfirhöndinni mjög snemma í leiknum.“

„Það eru svo margir hlutir sem þú getur gert í leiknum og að sjá mismunandi lið koma með mismunandi hugmyndir inn í leikinn var frábært því við vorum að uppgötva þessa hluti á sama tíma og þeir sem voru að fylgjast með á streyminu heima í sófanum,“ segir Bardolph.  Sú reynsla hafi verið frábær vegna þess að þá er eins og fólkið sem sitji heima að horfa á streymið sé raunverulega með þér. 

Dásamleg upplifun á Íslandi og fékk að sjá eldgosið

Bardolph segir að upplifun sín á Íslandi hefði verið frábær, en hann hitti meðal annars gamlan vin sinn, sem hann hafði kynnst í gegnum tölvuleiki fyrir sex árum síðan, á landinu fyrir tilviljun og snæddu þeir saman kvöldmat tvö kvöld í röð.

Fyrsta heila daginn sem Bardolph var á landinu var honum boðið í þyrluflug til þess að sjá eldgosið og segir hann það hafa verið hreint út magnað og líkti eldgosinu við hafsjó af hrauni.

Íslensk nöfn minna á Marvel kvikmynd

„Öll eyjan er frekar fjarstæðukennd, á besta hátt mögulegan samt, með öll þau vísindi sem finnast bara hér. Þessi staður er einn af þeim fáu þar sem þú finnur eldgos og þess háttar, allir jarðskjálftarnir og svo mikið er í gangi,“ segir Bardolph um Ísland en bætir svo við að meðalgæðin á mat og skyndibitastöðum hér séu ótrúlega góð og að það sé alveg klikkað.

Bardolph fékk ágætis kynningarferð um landið þar sem honum var tjáð íslensk saga og lærði hann margt um íslensk mannanöfn og hvaða meining kann að liggja að baki íslenskra nafna. Hann líkti því við að vera í Marvel-kvikmynd.

Hann hefur fengið að hitta fullt af fólki hér á landi. Þar á meðal var rafíþróttaliðið Trúðalestin, en liðið heimsótti Bardolph og gaf honum treyju.

Gefur honum mest að eiga samskipti við aðdáendurna

„Mitt helsta forgangsverkefni á viðburðum, fyrir utan að vinna vinnuna mína, er að kynnast fólki og njóta stundarinnar með þeim og mér finnst það svo gaman. Það gerir mig ánægðan og þau líka,“ segir Bardolph en hann á það til að kaupa sér flugmiða í almennu rými þegar hann ferðast á stóra viðburði og lendir hann oft í því að fólk þekki hann og hafa sumir aðdáendur verið að hlusta á hann lýsa leikjum frá unga aldri.

Það fær hann til þess að hugsa til baka til þeirra radda sem hafi haft mest áhrif á hann frá barnæsku sinni og finnur hann auðmýkt í því.  Bardolph segir að aðdáendurnir hans séu ástæða þess að hann fái að vinna við það sem hann gerir í dag.

Þá séu aðdáendurnir það langbesta við vinnuna hans, að hitta fólk sem vilji hlusta á hann og fái eitthvað út úr því. „Það er mest gefandi,“ segir Bardolph að lokum. 

mbl.is