Íslenskir bræður skrifa tölvuleikjabók

Bræður gefa út Tölvuleikjaspurningarbók. Birkir Grétarsson og Huginn Þór Grétarsson.
Bræður gefa út Tölvuleikjaspurningarbók. Birkir Grétarsson og Huginn Þór Grétarsson. Árni Sæberg

Bókin Hvað Veistu Um Tölvuleiki hefur verið gefin út af bókaútgáfunni Óðinsauga. Bræðurnir Huginn Þór Grétarsson og Birkir Grétarsson skrifuðu hana með það í huga að fá börn sem spila tölvuleiki til þess að lesa meira.

Huginn telur þetta vera réttu leiðina til þess að efla börn í lestri þar sem að efnið liggur í áhugasviði þeirra en bókin er stútfull af spurningum og fróðleik um tölvuleiki og framþróun þess iðnaðar.

Ferðalag um tölvuleikjasöguna

„Þessu bók spannar alveg frá því að fyrstu tölvuleikirnir verða til, upphafið eða „the beginning“,“ segir Huginn Þór í samtali við mbl.is og er bókin í raun sköpunarsaga þessa risastóra leikjaiðnaðar sem tröllríður heiminum um þessar mundir.

Fyrri hluti bókarinnar fjallar um vinsæla leiki sem teljast enn til nýrra leikja í dag og má nefna Fortnite, Minecraft Grand Theft Auto en seinni hlutinn býr að eldri leikjum eins og dos leikina, Double Dragon, Simcity, Civilization og King Quest.

„Það má segja að spurningabókin sé í rauninni ferðalag í gegnum þennan tíma og þessa þróun.“

Vekur nostalgíu

Sem fyrr var getið er bókin stútfull af spurningum og fróðleik en einnig má finna fjöldan allan af myndum og skjáskotum úr leikjum sem þeir bræður hafa þurft að afla sér en myndirnar vekja eflaust upp nostalgíu hjá „gömlu jöxlunum“.

„Ég spilaði á sínum tíma þessa gömlu leiki og bróðir minn var Íslandsmeistari í Overwatch,“ segir Huginn og er því ljóst að áhugi bræðranna á tölvuleikjum er vissulega til staðar.

Félagslegi þátturinn á uppleið

Huginn telur félagslega þáttinn vera að eflast á ný í heim tölvuleikja og vísar í fjölspilun (e. multiplayer) en honum fannst á tímabili sá þáttur hafa dvínað.

„Áður fyrr sátu krakkar hlið við hlið og spiluðu en svo fór þetta út í það að vera svolítið einmannalegt en er aftur komið í það að það sé mikill félagsskapur í kringum þetta. Að spjalla saman í gegnum netið og vinna saman í þessum leikjum.“

Gáfu út bók 2018

Þetta er ekki fyrsta bók bræðranna en Birkir Grétarsson og Gauti Eiríksson, sem tilnefndur var til menntamálaverðlauna á þessu ári, gáfu út bókina HM 2018 - fótboltaspurningar í samvinnu við Huginn en Gauti hefur gefið út fjölda spurningabóka.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert