Herða varnir gegn braski með PS5

Japanskir söluaðilar reyna að vinna bug á bröskurum.
Japanskir söluaðilar reyna að vinna bug á bröskurum. Ljósmynd/Unsplash/Charles Sims

Japanskir söluaðilar verða sífellt frumlegri í baráttu sinni við PlayStation 5 braskara en það eru menn sem leita uppi tölvuleikjabúnað á netinu, kaupa hann og selja á hærra verði.

Eyðileggja umbúðir

Sem fyrr segir eru japanskir söluaðilar orðnir frumlegri í baráttu sinni við þá og hafa nú hafist handa við það að merkja eða eyðileggja umbúðir seldra tölva.

Líkt og í mörgum öðrum löndum hefur skortur á PlayStation 5 tölvum aukist eftir að braskararnir urðu fleiri og fóru að endurselja tölvurnar meira í magni með verulagri álagningu. Sumar verslanir hafa jafnvel þurft að kalla til lögreglu vegna þessa.

Nýjar stefnur settar

Í síðasta mánuði innleiddi japanska verslunarkeðjan Nojima Denki nýja stefnu til þess að sniðganga braskarana en þá er skrifað nafn kaupandans á hlið PlayStation 5 umbúðanna auk þess að eyðileggja umbúðir fjarstýringanna.

PSU greinir frá annarri raftækjaverslunarkeðju, GEO, sem hefur tekið upp á því að láta viðskiptavini vita af því að innanverðar umbúðar allra leikjatölva sem seljast hjá þeim verða merktar.

Eins og lottóvinningur

Eins og hjá mörgum PlayStation 5 söluaðilum í Japan er GEO að selja þær í gegnum einskonar lottó og var seinasta lottóið þeirra haldið í gær en þá barst viðskiptavinum sú tilkynning að ný stefna gegn bröskurum væri farin af stað og voru þeir beðnir um að samþykkja hana.

Söluaðilinn upplýsti þá viðskiptavini um það að umbúðir PlayStation 5 tölvanna yrðu opnaðar og stór kross yrði teiknaður á umbúðir fjarstýringanna, til þess að merkja þær sem notaðar.

mbl.is