Sendir RÍSÍ uppreistan þumal

Páll Sindri Einarsson, einnig þekktur sem b0ndi. Leikmaður hjá Dusty.
Páll Sindri Einarsson, einnig þekktur sem b0ndi. Leikmaður hjá Dusty. Ljósmynd/Aðsend

Páll Sindri Einarsson, einnig þekktur sem b0ndi, er 29 ára gamall rafíþróttamaður og keppir í fyrstu persónu skotleiknum Counter-Strike: Global Offensive með Dusty. Hann spilar og keppir bara í einum leik og er það Counter-Strike.

Alltaf spilað Counter-Strike

„Ég var byrjaður að stelast í tölvuna mjög ungur, tíu ára kannski,“ segir Páll í samtali við mbl.is en hann fékk sína fyrstu tölvu í fermingargjöf og hefur alltaf spilað tölvuleikinn Counter-Strike og er það enn í dag, hans eftirlætis leikur.

Æfingarrútínan hans hefur breyst eftir að hann eignaðist dóttur og nær hann þá kannski um fimm mínútum til upphitunar og er það þá eftir að hún sofnar á kvöldin.

Streymir reglulega

„Þegar maður var yngri gat maður spilað eins og maður vildi, það er ekki alveg þannig núna,“ segir Páll en þrátt fyrir að mikið sé að gera heima fyrir þá tekst honum að streyma reglulega.

Páll streymir á Twitch rásinni sinni bondinn og vísar nafnið í bónda en ekki James Bond. Páll veit ekki afhverju hann valdi það rafheiti.

Viðhorf til rafíþrótta breyst

Hefur hann farið erlendis að spila og keppa með liðunum sínum, sótt í LAN hér á Íslandi og eins fengið að kynnast fullt af fólki í gegnum heim tölvuleikja og rafíþrótta.

Undanfarin ár hefur margt breyst í viðhorfum almennings til tölvuleikjaspilunar og rafíþróta en áður fyrr þótti það ekki flott að spila tölvuleiki en Páll telur það hafa breyst til muna og „sem betur fer“.

Vill stækka streymin

„Það er allt orðið svo miklu betra en það var, aðstaðan hjá Arena er geðveikt fyrir unga sem gamla iðkendur, Vodafone-deildin og öll sú vinna í kringum hana,“ segir Páll og kveðst geta talið lengi áfram upp jákvæðar breytingar á rafíþróttamenningu á Íslandi.

Hann hefur það að markmiði að stækka og bæta streymin sín og hefur mjög gaman að því. Spurður að lokum hvort hann vilji bæta einhverju við kveðst hann vilja senda Rafíþróttasamtökum Íslands uppreistan þumal.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert