KennyS snýr aftur í byrjunarlið G2

KennyS tekur upp AWP-riffilinn aftur og stígur á svið með …
KennyS tekur upp AWP-riffilinn aftur og stígur á svið með G2 á IEM Winter. Ljósmynd/ESL

Stórmótið IEM Winter í Counter-Strike:Global Offensive hefst í byrjun desember. Mótið er umsvifamikið og mæta sextán lið til leiks. Hinn frægi KennyS mun stíga inn í byrjunarlið G2 á mótinu.

Vandamál með vegabréfaáritun

Evrópska liðið G2 Esports er eitt liðanna sem tekur þátt í mótinu. Serbneski leikmaðurinn Nexa er byrjunarliðsmaður hjá G2 en er hann nú í vandræðum með að fá vegabréfaáritun sem hann þarf.

G2 sá ekki annað í stöðunni en að skipta honum út og mun KennyS koma í hans stað. KennyS er frægur CS:GO leikmaður, en hann hefur unnið mörg stórmót og er því reynslumikill. 

KennyS á sér marga aðdáendur og hafa margir lýst yfir ánægju sinni að fá að sjá KennyS aftur á stóra sviðinu með AWP-riffilinn í hönd.

Liðið G2 er nú í öðru sæti yfir bestu lið heims í leiknum CS:GO, á eftir NAVI sem unnu stórmeistaramótið PGL Major fyrir stuttu. Verður forvitnilegt að fylgjast með gengi G2 og KennyS á stórmótinu IEM Winter.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert