Haustúrslit BLAST Premier halda áfram í dag

Bikarinn sem fer til sigurliðs lokamótsins í BLAST Premier mótaröðinni.
Bikarinn sem fer til sigurliðs lokamótsins í BLAST Premier mótaröðinni. Skjáskot/BLAST

Haustúrslit stórmótsins BLAST Premier í leiknum Counter-Strike: Global Offensive er nú í fullum gangi. Átta lið taka þátt í mótinu sem haldið er í Royal Arena í Kaupmannahöfn.

Keppast um sæti í lokamótinu

Mótaröðin BLAST Premier snýst um það að safna stigum í stórmótum mótarðarinnar til að komast í lokamótið.

Sigurvegari haustúrslita BLAST Premier tryggir sér sæti í lokamótinu sem fer fram í næsta mánuði. Ásamt sæti í lokamótinu fær sigurlið mótsins rúmlega 29 milljónir íslenskra króna í verðlaun.

Nú þegar hafa fjögur lið tryggt sér sæti í lokamótinu, og vekur athygli að tvö þeirra liða taka þátt í mótinu sem nú er í gangi. Þessi tvö lið eru NAVI og Heroic, en þau hafa tryggt sér sæti í lokamótinu með sigri í öðrum stórmótum. 

Haustúrslit BLAST Premier hófust í gær en liðin átt sem taka þátt eru Team Vitality, NiP, NAVI, Astralis, BIG, FaZe Clan, Heroic og Team Liquid.

Liðin fá auka tækifæri í tvöfaldri útsláttarkeppni

Spiluð er tvöföld útsláttarkeppni þar sem allar viðureignir eru best-af-3. Tvöföld útsláttarkeppni þýðir að lið fái auka tækifæri, tapi þau viðureign. Keppnin hófst í gær þar sem fjórðungsúrslit efra leikjatrés fóru fram. 

Það voru NAVI, Heroic, Team Vitality og Astralis sem sigruðu sína leiki og eru því komin í undanúrslit efra leikjatrés. NAVI og Heroic mætast því í dag klukkan 14:00, og í kjölfarið mætast Team Vitality og Astralis klukkan 16:00.

BIG, FaZe Clan, Team Liquid og NiP töpuðu sínum leikjum og eru því nú í neðra leikjatré. BIG og FaZe Clan mætast á morgun í neðra leikjatré klukkan 12:30 og í kjölfarið mætast Team Liquid og NiP klukkan 15:00. Liðin sem tapa þeim viðureignum eru úr leik í mótinu þar sem þau eru nú í neðra leikjatré.

Vert er að taka fram að liðin í neðra leikjatré eiga þó enn séns á að vinna mótið, en sigri þau allar viðureignir í neðra leikjatré komast þau í úrslitaleikinn.

Allar viðureignir mótsins eru sýndar á Twitch-rás BLAST Premier. Úrslit og næstu leiki er hægt að nálgast hér.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert