Frestað vegna kynfæramyndar

Tim Paine, fyrrum fyrirliði ástralska karlalandsliðsins í krikket.
Tim Paine, fyrrum fyrirliði ástralska karlalandsliðsins í krikket. AFP

Tölvuleikjafyrirtækið Big Ant hefur frestað útgáfu tölvuleiksins Cricket 22 vegna vandamála sem tengjast krikketspilara sem átti upprunalega að prýða kápu leiksins.

Fyrrverandi fyrirliði ástralska karlalandsliðsins í krikket, Tim Paine, verður skipt út vegna kynferðislegrar áreitni hans gagnvart fyrrverandi samstarfsaðila sínum en í stað Paine mun Pat Cummings, núverandi fyrirliði ástralska karlalandsliðsins í krikket, prýða kápu tölvuleiksins.

Sendi mynd af kynfærum sínum

Tim Paine sendi fyrrum samstarfsaðila sínum klúr skilaboð ásamt mynd af kynfærum sínum árið 2017 og var málið rannsakað af krikketyfirvaldinu, Cricket Tasmania, ári seinna.

Rannsókn málsins benti til þess að atvikið hefði átt sér stað með „samþykki“ beggja aðila og var Paine því sýknaður af málinu. Hinsvegar var málið gert opinbert í síðustu viku og hætti Paine þá sem fyrirliði ástralska krikketliðsins.

Tekur sér hlé

Umboðsmaður Paine, James Henderson, tísti frá því að Paine væri sem stendur að taka sér hlé frá krikket til þess að hlúa að andlegri heilsu sinni.

Big Ant Studios ákvað því að fresta útgáfu leiksins um eina viku á meðan kápu krikketleiksins er breytt, en í stað Paine mun núverandi fyrirliði ástralska karlalandsliðsins í krikket, Pat Cummings, prýða kápu Cricket 22 ásamt Meg Lanning sem er fyrirliði ástralska kvennalandsliðsins í krikket.

Fyrirtækið staðfestir það með tísti og segir að leikurinn verði gefinn út þann 2. desember.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert