„Hún er bara geðveikt falleg við hliðina á mér“

Snorri Freyr, einnig þekktur sem DjentlemanXIII.
Snorri Freyr, einnig þekktur sem DjentlemanXIII. Ljósmynd/Aðsend

Snorri Freyr Þórisson, einnig þekktur sem DjentlemanXIII á Twitch, hefur verið duglegur að streyma undanfarin ár ásamt því að vera mikill áhugamaður um líkamsrækt en hann er menntaður einkaþjálfari og stefnir á að klára BS í íþrótta- og heilsufræði í Háskóla Íslands.

Varð strax hrifinn af þessu

„Ég vissi af Twitch og ákvað að prófa að taka eitt streymi til að athuga hvort að fólk myndi spila með okkur,“ segir Snorri í samtali við mbl.is en þannig hófst streymisferill Snorra sumarið 2015 þegar honum og kærustunni hans, Guðrúnu Nönnu Egilsdóttur, ásamt félaga þeirra vantaði auka leikmann í tölvuleikinn sem þau voru að spila.

„Þau streymi voru klárlega ekki upp á marga fiska, en ég man að mér fannst merkilega skemmtileg og einstök upplifun að manneskja út í heimi gat fundið mína rás og átt samtal við mig. Þetta var svona ekta Omegle augnablik. Ég varð strax hrifinn af þessu.“

„Þetta var í rauninni tilviljun þarna allra fyrst en áhuginn kom þegar ég fann að fólk vildi virkilega koma í hvert skipti og eyða tíma með mér,“ segir Snorri varðandi upphaf streymisferilsins.

Situr fallega við hlið hans

„Það hefur komið fyrir að kærastan mín komi við og sé með á streymunum en það gerist því miður alltof sjaldan,“ segir Snorri.

Snorri Freyr og Guðrún Nanna í góðum gír.
Snorri Freyr og Guðrún Nanna í góðum gír. Ljósmynd/Aðsend

„Þetta er langmest ég að tala við fólkið og spila á meðan hún er bara geðveikt falleg við hliðina á mér.“

Snorri hefur reynt að fá hana til þess að streyma oftar með sér en segir hana ekki vera jafn spennta yfir því og hann. Hún sé samt alltaf með í spjallinu á streyminu og spjalli við áhorfendur þar. 

Þétt samfélag myndast

Hann telur ákveðinn einkahúmor og samþéttni hafa myndast á rásinni í gegnum streymin og er hreykinn af því að hafa byggt upp þetta „svakalega vingjarnlega og skemmtilega samfélag sem við köllum Herramannaklúbbinn, eða „The Djentlemen’s Club“,“ að sögn Snorra.

Um þessar mundir er Snorri að spila alla Halo söguþræðina áður en Halo Infinite sagan verður gefin út í desember. Eins spilar hann tölvuleikinn Rocket League, GTA V og fleiri leiki.

„Ég er í rauninni streymari sem elskar að breyta til, svo það er alltaf eitthvað nýtt á könnunni.“

Skemmtunin smitar frá sér

Snorri hefur nokkrum sinnum tekið þátt í Rocket League mótum og svo virðist vera að hann sigri yfirleitt fyrstu viðureign sína en sé gjörsamlega slátrað í þeirri næstu.

„Fólk er skuggalega gott í leiknum, það er alveg ómögulegt að halda í við það,“ segir Snorri um íslenska Rocket League samfélagið en hann keppti á árunum 2016 til 2020.

Það sem skiptir hann mestu máli þegar hann ákveður leiki til þess að spila á streymunum eru að þeir séu skemmtilegir fyrir hann.

„Þú getur sett á leik sem þú hefur núll áhuga á og fólk mun sjá hvað þú ert ekki að njóta þín. Ef þú skemmtir þér þá smitast það útfrá sér,“ segir Snorri varðandi leikjaval en hann leggur einnig mikið upp úr því að halda skopskyninu við í frítíma.

Heldur jákvæðni og skopskyni við

„Rásin er eins og þriggja klukkustunda sjónvarpsþáttur, þannig að ég reyni að koma eins miklu inn í þann ramma og ég get,“ segir Snorri og nefna má þegar hann dregur myndavélina nær andlitinu sínu til þess að auka áherslur á brandara og tilkynningar þegar nýjir áskrifendur bætast við síðuna eða önnur framlög leggjast inn.

Hann leggur mikið upp úr að fólk sé kurteist, umburðarlynt og gott við hvort annað á rásinni svo það gefur honum mikið að vita að rásin hans innihaldi eitthvað jákvætt sem mögulega gerir daginn hjá fólki aðeins betri.

Persónulegri reynsla

Eins hefur hann bætt við ýmsum áskorunum fyrir áhorfendur til þess að eyða stigum sínum í og hefur það gert streymin skemmtilegri fyrir fólkið, því þá hafa áhorfendur persónuleg áhrif á það sem gerist í streyminu.

Eitt skiptið var Snorri látinn spila tölvuleikinn Getting Over It, en hann segir þann tölvuleik vera „einn mest ergjandi tölvuleik sem til er“.

„Ég streymdi í þrjár klukkustundir og var kominn á toppinn, ég var svona þrjár sekúndur frá því að sigra leikinn, en ég sveiflaði hamrinum illa og endaði alla leiðina á botninum. Svo endaði streymið, það var ekki hægt að biðja um betri endi.“

Hér að neðan má sjá myndbandið af endi umrædds streymis.

Styrktu parið með ýmsum framlögum

Samfélagið í kringum streymið er mjög virkt og kom það saman árið 2017 og styrkti Snorra og Guðrúnu í formi framlaga og áskrifta til þess að fara á ráðstefnuna TwitchCon en það er ráðstefna fyrir fólk sem streymir og horfir á efni á Twitch.

„Það var ótrúlega skemmtileg og eftirminnileg upplifun að fara út til Long Beach og hitta fólkið sem maður hafði bara horft á,“ segir Snorri en þau hafa kynnst mikið af fólki í gegnum streymisferilinn og sótt allskonar viðburði.

„Það er líka svo gaman hvað það eru margir sem hafa fylgst með alveg frá byrjun og koma alltaf aftur.“

mbl.is