Notar alvöru traktor til að spila

Streymirinn Rudeism umbreytti alvöru traktor í stýritæki fyrir tölvuleiki.
Streymirinn Rudeism umbreytti alvöru traktor í stýritæki fyrir tölvuleiki. Skjáskot/Twitter/Rudeism

Búskapur og tölvuleikir eru tveir mjög ólíkir hlutir. Það er þó til tölvuleikur sem er búskapshermir, sem bæði bændur og einstaklingar ekki kunnugir búskap spila. Streymirinn Rudeism breytti alvöru traktor í stýritæki fyrir búskapshermi.

Áður umbreytt ýmsum hlutum til spilunar

Hinn nýsjálenski Dylan Beck, einnig þekktur sem Rudeism, setti sér það verkefni að breyta traktor í stýritæki fyrir tölvuleiki. Rudeism hefur áður notað óvenjulegan búnað til að stjórna ýmsum tölvuleikjum, en hann hefur m.a. gert banana og örbylgjuofn að notanlegum stýritækjum fyrir tölvuleiki. 

Traktorinn sem Rudeism umbreytti í stýritæki fyrir tölvuleiki er af gerðinni Case IH Magnum 310, og hefur stýritækið fengið viðurnefnið „tractroller“. Hann bjó til stýritækið til að fagna útgáfu leiksins Farming Simulator 22.

„Ég hef verið að búa til ýmis stýritæki síðustu ár, en þau verða stærri og fáránlegri með árunum,“ er haft eftir Rudeism.

Ætlar að streyma búnaðinum um helgina

Hann segir einnig að margir leikjanna sem hann spilar með óvenjulegu stýritækjunum séu mjög ákafir og sé hann þakklátur fyrir rólega leiki eins og Farming Simulator-leikina vegna þessa.

Rudeism stefnir að því að streyma frá Farming Simulator 22 um helgina þar sem hann ætlar að notast við stýritækið sem hann bjó til úr alvöru traktor. Hægt er að nálgast fyrri verkefni Rudeismt á YouTube-rás hans.

mbl.is