S1mple og NAVI á góðri siglingu

Skjáskot/BLAST

Nú liggur fyrir hvaða lið er sigurvegari haustúrslita stórmótsins BLAST Premier í leiknum Counter-Strike: Global Offensive. Úrslitaviðureign mótsins fór fram í gærkvöldi, en NAVI hafði betur á móti Team Vitality í úrslitum.

NAVI sigruðu allar sínar viðureignir

Leikin var einföld útsláttarkeppni og voru allar viðureignir best-af-3. NAVI sigruðu allar sínar viðureignir og voru því í efra leikjatré allt mótið.

Team Vitality hinsvegar töpuðu á móti NAVI í úrslitaviðureign efra leikjatrés, og féllu niður í neðra leikjatré þar sem þeir mættu Astralis í úrslitaviðureign neðra leikjatrés.

Team Vitality sigruðu viðureign sína á móti Astralis 2-1 og komust í úrslitaviðureign mótsins, þar sem þeir mættu aftur NAVI.

Kortin þrjú sem urðu fyrir valinu í úrslitaviðureign mótsins voru Mirage, Nuke og Inferno, í þessari röð. NAVI sigruðu Mirage 16-12, en Team Vitality sigruðu Nuke 16-6. Hreinn úrslitaleikur var því spilaður í viðureigninni þar sem staðan var 1-1.

Inferno bani Team Vitality

NAVI sigruðu þægilega 16-7 í Inferno, sem var síðasta kortið. NAVI standa því uppi sem sigurvegarar mótsins og halda heim með tæpar 30 milljónir íslenskra króna.

Sigurvegari mótsins fékk einnig sæti í lokakeppni BLAST Premier að launum, en NAVI hafði áður tryggt sér sæti með sigri í mótunum EPL S14 og PGL Major 2021. 

Hinn úkraínski Sasha „s1mple“ Kostyliev, leikmaður NAVI, fór af kostum í stórmeistaramóti PGL fyrir stuttu og hélt áfram að gera það gott í haustúrslitum BLAST Premier. Hann var valinn mikilvægasti leikmaður mótsins með frábæra tölfræði. 

Tölfræði s1mple í haustúrslitum BLAST Premier.
Tölfræði s1mple í haustúrslitum BLAST Premier. Skjáskot/HLTV.org

Verður forvitnilegt að fylgjast með s1mple og NAVI á lokamóti BLAST Premier sem fer fram um miðjan desember. NAVI hafa verið á góðri siglingu undanfarið og virðast hvergi nærri hættir.

mbl.is