Þægilegt hjá Dusty á móti Ármanni

THOR, leikmaður Dusty, átti góðan leik á móti Ármanni.
THOR, leikmaður Dusty, átti góðan leik á móti Ármanni. Grafík/Vodafonedeildin

Fyrstu tveir leikir áttundu umferðar í Vodafonedeildinn í Counter-Strike: Global Offensive fóru fram í gær. Dusty og Ármann mættust í seinni leik gærkvöldsins, en fyrir leik voru Dusty ósigraðir á toppi deildarinnar.

Dusty hafa sigrað alla sína leiki í deildinni það sem af er tímabili og sátu því einir í toppsætinu fyrir leik á móti Ármanni. Ármann komust upp í þriðja sætið í síðustu umferð og höfðu með sigri möguleika á að koma sér þægilega fyrir í efri hluta deildarinnar.

Lið Dusty í áttundu umferð var skipað þeim THOR, Bjarna, EddezeNNN, Midgard og leFluff.

Hjá Ármanni voru það kruzer, ofvirkur, peter, vargur og huNdzi sem mættu til leiks.

Auðvelt hjá Dusty í Inferno

Dusty og Ármann mættust í hinu víðfræga korti Inferno. Dusty byrjaði leikinn betur og sigruðu þeir sjö af fyrstu átta lotum leiksins. Ármann létu Dusty aðeins finna fyrir sér í lok fyrri hálfleiks, en staðan í hálfleik var þó 10-5 Dusty í hag.

Seinni hálfleikur var heldur rólegur og óspennandi, en Ármann sigruðu aðeins eina lotu í seinni hálfleik. Leiknum lauk með 16-6 sigri Dusty, og var þægilegur sigur Dusty staðreynd, enda þaulvanir að ganga um götur Inferno. Leikmaðurinn THOR lauk leik á toppi skortöflu hjá liði Dusty og steig varla feilsport í leiknum.

Ármann halda þriðja sætinu eftir tap gegn Dusty, en XY hafa möguleika á að stela af þeim þriðja sætinu á föstudaginn. Dusty hafa enn ekki tapað leik í deildinni og hafa þeir komið sér þægilega fyrir í toppsæti deildarinnar.

Níunda umferð hefst á þriðjudaginn eftir viku, en þá mætast Dusty og SAGA, og Ármann mætir Vallea. Hægt er að skoða úrslit, næstu leiki og stöðu Vodafonedeildarinnar hér.

mbl.is