Fresta móti vegna Ómíkron

Skjáskot/Apex Legends

Mikil spenna var meðal leikmanna og aðdáenda leiksins Apex Legends þegar tilkynnt var að úrslitakeppni fyrsta viðburðar Apex Legends Global Series, eða ALGS, færi fram á LAN-viðburði. Í gær var tilkynnt að svo mun ekki verða vegna nýs afbrigðis covid-19.

Hætta við LAN-viðburð vegna covid-19

Mörg rafíþróttamót hafa neyðst til að fresta eða hætta við stærri viðburði síðustu tvö ár vegna covid-19. Einhverjir viðburðir hafa nú verið haldnir á LAN-viðburði, sem hefur vakið mikla ánægju aðdáenda. 

Ekki hefur verið haldinn LAN-viðburður í Apex Legends síðan árið 2019, og var því mikil tilhlökkun meðal Apex-senunnar á heimsvísu þegar loks átti að halda LAN-viðburð nú í desember. 

Apex Legends tilkynnti í gær að hætti hafi verið við að hafa úrslitakeppni fyrsta viðburðar ALGS á LAN-viðburði vegna Ómíkron-afbrigðis covid-19. Úrslitakeppninn hefur því verið frestað til næsta árs ásamt því að sniði keppninnar hefur verið breytt.

Spilað á netinu og breytt snið

Upprunalega áttu 20 bestu lið heims að mætast á LAN-viðburði og var verðlaunafé mótsins um 130 milljónir íslenskra króna. Nú hefur sniðinu hinsvegar verið breytt í svæðisbundnar úrslitakeppnir sem spilaðar verða á netinu. 

Keppt verður á fimm svæðum, þar sem 20 bestu lið deildarkeppna á hverju svæði mæta til keppni. Heildarverðlaunaféinu hefur verið skipt á milli þessara fimm svæða, sem þýðir að bestu liðin keppast nú um minni peningaupphæð.

Þykir vel gert hjá Apex Legends að finna lausnir á vandamálunum, og er aðdáunarvert að þeir hafi ákveðið að breyta sniðinu í stað þess að aflýsa allri keppni.

mbl.is