Íslenskt undrabarn í Dota keppti á móti

Atli Snær, undrabarn í Dota.
Atli Snær, undrabarn í Dota. mbl/Viðja

Atli Snær Sigurðsson, einnig þekktur sem ic3fog, er tólf ára Dota spilari og fékk nýlega undanþágu vegna aldurs til þess að keppa á Almenna Dota mótinu sem haldið var í Arena.

Safnaði sér sjálfur fyrir tölvu

Sigurður Jens Sæmundarson, faðir Atla, kynnti hann fyrir leiknum árið 2017 þegar Atli var sjö ára gamall en fékk hann þá að stelast í tölvu föður síns og spila á aðgangi hans en fjórum árum seinna, þegar Atli var ellefu ára gamall, þá hafði hann safnað sér fyrir sinni eigin PC-tölvu og keypt sér slíka.

„Þá fór hann að spila Dota meira og varð allt í einu rosalega góður Dota spilari,“ segir Sigurður í samtali við mbl.is og hefur dæmið snúist við þar sem að í dag kennir eggið hænunni á Dota.

Vinnur sér inn tölvudaga

Atli æfir sig og spilar á tölvudögum auk þess sem hann horfir stundum á myndbönd af reyndari spilurum í gegnum streymisveituna YouTube til þess að læra nýja tækni og bæta sig í leiknum.

Hann vinnur sér inn tölvudaga með því að mæta á og sinna körfuboltaæfingum en hann fær tækifæri á að vinna sér inn aukadag með því að sinna ýmsum heimilisverkum.

Þykir honum skemmtilegast að spila með öðrum Íslendingum en vinir hans úr raunheimum eru lítið hrifnir af leiknum. Þess í stað hefur hann komist inn í íslenska Dota samfélagið og kynnst mörgum öðrum spilurum þar sem hafa tekið honum fagnandi og auk þess hjálpað honum að læra betur á leikinn.

„Mig langar að halda áfram og komast í eitthvað gott lið,“ segir Atli.

Mikill stuðningur frá foreldrum

Auk annarra leikmanna úr samfélaginu hafa báðir foreldrar sýnt honum mikinn stuðning hvað varðar rafíþróttaferil Atla og sem fyrr segir kynnti pabbi hans hann fyrir leiknum og spila þeir stundum saman en móðir hans, Hildur Arna Hjartardóttir, hannaði og útbjó einkennismerkið ic3fog fyrir áframhaldandi feril hans í rafíþróttum.

„Dota er svona leikur þar sem þú þarft að fá gull til að kaupa þér góða hluti, og reyna að ná virkinu hjá hinum til að vinna leikinn. Þetta er svona liðaleikur, semsagt þú getur ekki farið og gert eitthvað einn, þú þarft lið með þér,“ segir Atli um tölvuleikinn en í kjölfarið á því að spila hann hefur enskukunnátta hans aukist töluvert þar sem hann var mikið að spila með erlendum einstaklingum til að byrja með.

Halda fleiri mót

Atli hefur þó alltaf verið yfirburðargreindur og var meðal annars skákmeistari í skólanum sínum og vann bikar fyrir það ásamt því að búa yfir snöggum viðbrögðum sem hann nýtir og eflir með tölvuleikjaspilun.

Til þess að efla Dota senuna á Íslandi telur Atli að það þurfi að halda áfram að skipuleggja Dota mót og sýna frá þeim en hann vonast eftir því að sjá fleiri Dota leikmenn taka þátt og þá sérstaklega á hans aldri.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert