Vill stækka senuna fyrir komandi kynslóð

Gunnar Héðinn, rafíþróttamaður
Gunnar Héðinn, rafíþróttamaður mbl/Árni Sæberg

Gunnar Héðinn Brynjólfsson, einnig þekktur sem Gunterinu eða Candicef, er 22 ára gamall rafíþróttamaður en hann keppir í tveimur leikjum á Íslandi.

Spilar Gunnar fyrir XY Esports í tölvuleiknum Valorant og gengst þar undir nafninu Gunterino en hann spilar með liðinu Lilpeepo5head í League of Legends og er þar þekktur sem Candicef.

Hóf ferilinn fyrir þremur árum

„Ég byrjaði fyrir u.þ.b þremur árum síðan þegar vinur minn Gadget spurði mig hvort ég vildi vera með í liðinu MIQ sem hann var að búa til til þess að keppa í League of Legends,“ segir Gunnar í samtali við mbl.is.

„Eins og er er planið bara að taka sér nokkurra vikna pásu þar sem íslenska Valorant deildin var að klárast og jólin eru að koma. En svo á nýju ári mun maður byrja aftur að æfa sig fyrir næsta mót með XY Esports.“

Gunnar segist ekki vera með neina sérstaka æfingarútínu en sé hann að spila í Valornat þá fari hann vanalega á æfingarsvæðið (e. practice range) og æfir sig að skjóta vélmenni (e. bots) með helstu byssunum á borð við Vandal, Phantom og Sheriff. Að því loknu spilar hann nokkra leiki en sé hann að æfa sig í League of Legends þá fer hann bara beint í leik.

Er Valorant hans uppáhaldsleikur í dag ásamt Counter-Strike og League of Legends en hann spilar einnig mikið af leiknum Apex Legends.

Vill endurtaka leikinn

Fyrsti tölvuleikur sem hann spilaði var þó Gran Turismo 3: A-spec sem er kappakstursleikur og spilaði hann leikinn oft með móður sinni.

„Ég held að ég hafi bara aldrei náð að vinna hana, mér finnst að við ættum að mætast aftur og endurtaka leikinn þar sem ég er betri ökumaður í dag að mínu mati.“

Hefur Gunnar það að markmiði að ná sem mestum árangri með XY Esports í erlendum keppnum og stefnir að því að vinna einhver erlend mót en á síðasta ári lenti Gunnar í fyrsta sæti í JCS mótinu sem Anton Bjarki Olsen, einnig þekktur sem Jenk, stendur fyrir. Var þetta í fyrsta skiptið sem Gunnar sigraði íslenskt mót.

Stækka senuna fyrir komandi kynslóð

„Einnig langar mig að hjálpa til við að stækka og gera Valorant og League of Legends senurnar á Íslandi betri fyrir yngri kynslóðina sem tekur við af okkur,“ segir Gunnar en hann átti alveg von á því hvað rafíþróttir yrðu stórar erlendis en bjóst ekki við því hversu stórar þær yrðu á Íslandi og hvað þá á svona skömmum tíma.

„Þeir í RÍSÍ eru bara snillingar og eru að gera frábæra hluti fyrir íslensku senuna.“

Hvetur til meiri þátttöku

Vill hann þó sjá fleiri mót á Íslandi, bæði í Valorant og League of Legends, jafnvel einhverskonar smámót sem standa yfir eina helgi eða jafnvel viku. Eins telur hann ráðlegt að bæta við einstaklings skráningu þar sem hægt er að skrá sig einsamall á mót ef maður á ekki nógu marga vini sem spila League of Legends og nefnir að það hafi verið gert í Valorant samfélaginu á Íslandi.

Gunnar hvetur til þátttöku í bæði League of Legends og Valorant og segir að maður sé „aldrei of gamall eða lélegur til þess að keppa“.

Stelpurnar ekkert síðri

„Það er geggjað fjör að koma saman fimm vinir að keppa, þó maður er ekki að vinna alla leiki þá lærir maður samt helling af því að keppa á móti betri aðilum.“

Eins vill hann s já fleiri stelpur skrá sig í þessar deildir og nefnir að Kiss3TheRain í League of Legends og Raxi í Valorant sýndu vel á liðnu ári að stelpur eru alls ekki verri en strákar í tölvuleikjum og segir hann jafnframt að þær hafi verið bestu leikmenn deildanna í ár að hans mati.

Gunnar streymir ekki mikið en þegar hann gerir það er hægt að fylgjast með honum á Twitch-rásinni gunter99_.

mbl.is