Benda leikmönnum á að notast við tveggja þátta auðkenningu

Skjáskot úr leiknum FIFA 22.
Skjáskot úr leiknum FIFA 22. Skjáskot/FIFA 22

EA SPORTS hefur brugðist við og svarað viðvarandi vandamáli sem snýr að tölvurefum, öryggi og FIFA 22-aðgöngum.

Eins og flestir sem hafa spilað FIFA Ultimate Team í nokkur ár vita þá eru tölvurefir á kreiki í leiknum sem reyna markvisst að koma höndum sínum á peninga annarra leikmanna innanleikjar.

Peningum rænt

Þrátt fyrir að EA hafi aukið öryggi sitt í gegnum árin er þetta enn vandamál og sumir stórir FIFA 22-leikmenn hafa lent í því að verða fórnarlömb þessara tölvurefa. Til dæmis hefur aðgöngum þeirra verið blandað saman við aðra og peningarnir hrifsaðir í burtu og eins hafa reikningar horfið úr höndum leikmanna með breyttu tölvupóstfangi.

„Við erum meðvituð um nýlegar tilraunir til yfirtöku reikninga og erum nú að rannsaka málið,“ sagði EA við David Purcell hjá Dexerto.

Biðja um breytingu á tölvupósti

Purcell var einnig bent á að leikmenn væru hvattir til þess að auka öryggi aðganga sinna með því að notast við t.d. tveggja þátta auðkenningu (e. two-factor authentication) og hægt væri að nálgast nánari upplýsingar um það á vefsíðu EA.

Þessi þjófnaður fer þannig fram að tölvurefurinn hefur stafrænt spjall við stuðningssíðu EA og óskar eftir að láta breyta tölvupósti á ákveðnum aðgangi til þess að komast inn á hann.

Þá geta tölvurefirnir fengið aðgang að þeim reikningum sem þeir kjósa og er þetta vandamál orðið svo útbreitt að margir leikmenn, stórir sem smáir, hafa kvartað undan þessu.

mbl.is