„Minecraft er orðið kúl aftur“

Spicy Vanilla er íslensk rás í tölvuleiknum Minecraft.
Spicy Vanilla er íslensk rás í tölvuleiknum Minecraft. Grafík/Aðsend

Orri Andreassen hefur ásamt Hilmari Hólm Guðjónssyni útbúið og opnað fyrir sérstaka Minecraft-rás fyrir þá einstaklinga sem „eru tilbúnir að gefa Minecraft annan séns“.

Orri tilkynnti rásina, spicyvanilla.is,  með Facebook-færslu í Tölvuleikjasamfélaginu þar sem hann segir tilganginn m.a. vera að ýta undir könnunarleiðangra á meðal spilara.

Spilað síðan 2011

Orri og Hilmar hafa spilað Minecraft frá því að hann kom fyrst út, sem var í nóvember árið 2011, og hafa nú opnað fyrir spicyvanilla.is sem að sögn Orra er „algjörlega vanilla upplifun á leiknum“.

Yfirleitt er talað um vanilla útgáfu eða upplifun þegar leikmenn fá að spila og upplifa tölvuleikinn eins og hann var upprunalega en í þessu tilfelli er vanilla upplifunin þannig að ekki er búið að eiga við spilun leiksins, líkt og margar aðrar sérbúnar rásir gera.

Teygja sig í fleiri spilara

„Okkur langar að næla í spilara sem spiluðu kannski með okkur þegar Minecraft samfélagið var sem stærst, sirka árið 2015, og spila með þeim nýjungarnar sem hafa komið síðan þá,“ segir Orri í samtali við mbl.is.

Orri tekur þó fram að hann vilji enn fremur nálgast nýja spilara í leiknum og segir að spicyvanilla.is sé eflaust ekkert frábrugðinn öðrum rásum en allir spilarar fá handahófskenndan byrjunarreit í Minecraft heiminum og geta þá spilað á sinni eigin sneið af heiminum.

Að lokum tekur Hilmar Hólm fram að „Minecraft sé orðið kúl aftur!“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert