Úrslit vikunnar í hermikappakstri

Skjáskot úr Tier 1 keppni GTS Iceland.
Skjáskot úr Tier 1 keppni GTS Iceland. Skjáskot/Polyphony Digital

Í vikunni fór fram 10. umferð 2021-22 keppnisársins í GTS Iceland, íslensku mótaröðinni í Gran Turismo Sport. Braut vikunnar var hin margfræga Mount Panorama Motor Racing Circuit í Ástralíu, en fjallað var stuttlega um brautina í nýlegri færslu á vefsíðu GTS Iceland HÉR. Allar deildir keyrðu keppnisbíla í GT3 flokki.

Keyrt er í mótaröðinni á þriðjudags- og miðvikudagskvöldum aðra hverja viku og keppnir almennt sýndar í beinni útsendingu á YouTube rás GTS Iceland.

Tier 1

Þrettán af fjórtán keppendum mættu til leiks og óhætt að segja að það var hamagangur í öskjunni. Sjaldan hafa jafn margir keppendur þurft að heimsækja þjónustusvæðið vegna tjóns á bíl, og eins og sést hér að neðan þá endaði enginn ökumaður á sama stað og hann ræsti.

Það var lið Supernova, þau Eva og Hannes, sem hélt uppteknum hætti og nældi sér í 1-2 úrslit. Það var Eva sem tók ráspól, en Hannes var í hörku stuði og sigraði keppnina nokkuð örugglega, ásamt því að ná hraðasta hringnum. Ríkjandi Íslandsmeistari, Kári Steinn (NOCCO Racing Team), endaði í 3. sæti.

Hægt er að nálgast stigatöfluna ásamt öllum upplýsingum um Tier 1 deildina HÉR.

Upptöku af keppninni má sjá HÉR.

Tier 2

Allir fjórtán keppendur Tier 2 deildarinnar létu sjá sig í Ástralíu og var hörku keppni í vændum. Róbert Þór, liðsmaður THOR Racing Team, ætlaði greinilega ekki að fara heim með neitt annað en gullið frá þessari keppni.

Hann tók ráspól í tímatöku, sigraði keppnina og náði einnig hraðasta hring. Ekki er hægt að biðja um betri keppnisdag. Gunnar Ágústsson, liðsmaður NOCCO Racing Team, landaði 2. sæti, og Ívar Eyþórsson í liði GT Akademían Racing, sigurvegari síðustu keppni, tók 3. sætið.

Hægt er að nálgast stigatöfluna ásamt öllum upplýsingum um Tier 2 deildina HÉR.
Upptöku af keppninni má sjá HÉR.

Tier 3

Í opnu deildinni var mjög góð mæting, en 13 keppendur voru á ráslínu. Það var reynsluboltinn, og útsendingarstjóri Tier 1 deildarinnar, Daníel Rúnar, sem kom sá og sigraði. Agnar Freyr tók 2. sætið og nýliðinn Hafsteinn Veigar það þriðja, og hefur því lokið fyrstu tveimur keppnum sínum á verðlaunapalli. Jökull, eftir að hafa náð ráspól í tímatökum, náði ekki að fylgja því eftir og lauk keppni í 4. sæti.

Einn nýr keppandi bættist í hópinn í þessari keppni, Arnar Finnur Arnarsson, og átti mjög sterka innkomu. Hann ræsti úr tímatökum í 2. sæti, en lenti í smá ógöngum og endaði keppnina í 5. sæti.

Við vekjum athygli lesenda á því að Tier 3 er opin deild og allir velkomnir, svo fremi sem pláss sé í keppnina.

Hægt er að nálgast stigatöfluna ásamt öllum upplýsingum um Tier 3 deildina HÉR.

Upptöku af keppninni má sjá HÉR.

Allir velkomnir

Næstu keppnisdagar eru 9.-10. febrúar og verður keyrt á hinni bandarísku Willow Springs. Tier 3 og Tier 2 keyra GT3 bíla að vanda, en Tier 1 mun notast við SuperGT bíla.

Áhugasömum er bent á að hægt er að fylgjast náið með gangi mála í Facebook umræðuhóp GTS Iceland, en þar eru allir velkomnir, hvort sem tilgangurinn sé að keyra með hópnum, eða bara vera fluga á vegg og fylgjast með.

mbl.is