Vill hvetja konur til að hvetja konur

Marín Eydal er nett tölvuleikjapía og gengst undir rafheitini Mjamix.
Marín Eydal er nett tölvuleikjapía og gengst undir rafheitini Mjamix. Grafík/Mjamix

GameTíví býður upprennandi streymurum reglulega að taka yfir rásina og streyma þar. Gefur það streymurum tækifæri á að koma sér betur á framfæri og má nefna að streymisþættirnir Babe Patrol, Queens og Sandkassinn urðu að vikulegum þáttum útfrá „GameTíví Yfirtöku“.

Marín Eydal, 24 ára gamall streymir sem einnig er þekkt sem Mjamix, tók yfir GameTíví síðastliðna helgi og spilaði þar nokkra tölvuleiki fyrir áhorfendur í tæpar tólf klukkustundir.


 

Hefur alltaf spilað tölvuleiki

„Ég er langt frá því að vera eitthvað mjög góð í tölvuleikjum en ég hef gaman af því að spila allskonar leiki og langar að prófa sem flesta,“ segir Marín í samtali við mbl.is en hún hefur spilað tölvuleiki frá því að hún man eftir sér.

Var það eldri bróðir hennar sem kynnti hana fyrir tölvuleikjum þegar hún var lítil og segir hún þann tíma hafa ræktað samband þeirra og eflt tengingu þeirra systkina þegar þau voru að alast upp.

Hún segist aldrei hafa átt vinkonur sem spiluðu tölvuleiki eða höfðu nokkurn áhuga á því og var hún því oft kölluð strákastelpa, sem hún kunni vel við vegna þess að hún átti marga góða strákavini. 

Töff að vera tölvuleikjapía

Segir hún þá vini hafa styrkt sjálfstraustið hennar til muna og hvatt hana til þess að halda áfram að spila og sögðu hanni að það væri „bara nett að vera tölvuleikjapía“.

„Ég dýrka tölvuleikjasamfélagið á Íslandi þó það geti verið óhugnalegt stundum, þá finnst mér allir vera svo hvetjandi og tilbúnir að hjálpa,“ segir Marín og bætir við að markmið hennar með því að streyma sé til þess að vekja athygli á stelpum í tölvuleikjum.

„Við erum miklu fleiri en fólk heldur. Ég vil hvetja konur til að hvetja konur á öllum aldri til að spila tölvuleiki, ef ekki bara til að prófa.“

Streymin hennar gluggi

Marín hefur lengi hugsað um að koma sér inn lengra inn í þessa stétt en segir að henni hafði aldrei dottið í hug að streymin væru hennar gluggi. Einnig kemur það henni á óvart hversu mikla athygli hún er að fá og er hún mjög spennt fyrir framtíðinni.

„Tölvuleikir eru fyrir alla og ég elska að við tölvuleikjapíurnar erum að verða sýnilegri,“ segir Marín og ráðleggur þeim sem vilja prófa að streyma að vera ekki að stressa sig á því hvernig fólk sér sig.

Hreinlega sé best að vera maður sjálfur og að þetta sé bara erfitt fyrst, en síðan verði þetta bara gaman.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert