Íslendingar ná árangri erlendis

Íslenski fáninn. Íslenskir fánar. Þjóðfáni Íslands.
Íslenski fáninn. Íslenskir fánar. Þjóðfáni Íslands. mbl.is/​Hari

Ísland hefur í gegnum tíðina átt sterk lið í tölvuleiknum Counter-Strike og náð árangri erlendis. Hefur nú rafíþróttaliðið Dusty, sem keppir í tölvuleiknum Counter-Strike: Global Offensive, komið sér á HLTV listann yfir þá hundrað bestu í keppnissenu CS:GO.

Dusty hefur verið að vinna markvisst að því að koma sér á framfæri erlendis og hefur verið að taka þátt í erlendum mótum og vann nýlega Epic35 mót. Með því rauk liðið upp úr sæti 161 upp í 91. sæti á heimslista HLTV. Er liðið því með hundrað bestu liðum í heimi samkvæmt HLTV. 

Auk þess gerði liðið samning við erlenda liðið Cloud9 þegar það kom hingað vegna heimsmeistaramótsins í League of Legends. Fékk þá Cloud9 lánað æfingaraðstöðu hjá Dusty.

Eigum fleiri sterk lið

Þetta er þó ekki í fyrsta skiptið sem að íslenskir Counter-Strike leikmenn koma sér á framfæri úti í heimi og ná góum árangri. Í október árið 2006 fór íslenska liðið Seven til Bretlands og tók þátt í alþjóðlega WSVG (World Series of Video Games) mótinu. 

Seven lenti í fjórða sæti á því móti og átti gott hlaup í rafíþróttum á sínum tíma en hætti svo kjarninn að spila saman fyrir nokkrum árum síðan.

Leikmennirnir Brynjar Páll Jóhannsson „deNos“ og Birgir Ágústsson „sPiKe“ hafa þó spilað áfram saman í nokkrum mismunandi liðum frá árinu 2015.

Enn í bransanum

Eins náði íslenska liðið Warmonkeys frábærum árangri á erlendum vettvangi. Liðið keppti m.a. í næst efstu deild ESEA mótaröðinnar. Náði liðið nokkrum sinnum að komast í umspilsleiki sem hefðu komið þeim á næsta stig en átti alltaf erfitt með að klára þessa lykilleiki.

Nokkrir liðsmenn Warmonkeys eru í dag þekktir menn innan tölvuleikjasamfélagsins og starfa við uppbyggingu rafíþrótta á Íslandi í dag.

Með stækkandi senu rafíþrótta á Íslandi halda íslenskir rafíþróttamenn áfram að styrkjast og öðlast sífellt fleiri tækifæri úti í heimi.

mbl.is