Frá því að horfa á þá bestu í að spila með þeim

Egill Ari Hreiðarsson „EgillAri“ er Overwatch-leikmaður sem spilar með Tröllum …
Egill Ari Hreiðarsson „EgillAri“ er Overwatch-leikmaður sem spilar með Tröllum og landsliðinu. Ljósmynd/Aðsend

Egill Ari Hreiðarsson „EgillAri“ er átján ára rafíþróttamaður sem keppir í tölvuleiknum Overwatch á Íslandi sem og á erlendum vettvangi.

Egill spilar með Tröllum í úrvalsdeild Almenna Bikarsins en auk þess keppir hann fyrir hönd Íslands með liðinu Beau Monde Cohort, BMC, en það er íslenska landsliðið í Overwatch.

Vert er að nefna að Egill og liðsfélagar BMC tóku þátt í Evrópukeppni fyrr á árinu og hömpuðu þriðja sætinu.

Í nokkrum verkefnum

Sem stendur er Egill að bíða eftir að Open Division keppnin byrjar svo liðið hans, BMC, geti tekið þátt og reynt að spila sig upp í Contenders mótaröðina.

Einnig lýsti Egill úrslitakeppni opnu deildar Almenna Bikarsins síðastliðinn laugardag ásamt Markúsi vin sínum, sem einnig er þekktur sem Fenrir innan samfélagsins.

Egill segir æfingarútínuna sína vera frekar einfalda, fer þá hálftími í upphitun á hans uppáhalds hetjum en það eru Lúció, Mercy og Brigitte. Að því loknum er tveggja klukkustunda æfingaleikur við annað lið.

Tók á skarið og skráði sig

„Ég hafði verið að spila mikið af Overwatch á hversdagslegu stigi í nokkur ár og sá svo tilkynningu um að Almenni Bikarinn í Overwatch var að byrja, árið 2020. Ég þekkti fáa sem voru að fara að keppa,“ segir Egill í samtali við mbl.is.

Vakti þetta áhuga Egils og ákvað hann að skrá sig sem einstakling, þá var hann settur í liðið Tröll Hálfdánarhurðar og í kjölfarið á því hefur hann kynnst helling af skemmtilegu fólki og er „kominn á stað sem hann hélt að hann gæti aldrei náð á“.

„Ég fór frá því að horfa á Team Iceland keppa í heimsmeistaramótum í að spila með þeim sjálfur.“

Myndi vilja keppa í FRÍS

Fyrsti leikurinn sem Egill spilaði var Mario Kart Wii og spilaði hann þann leik mikið með eldri bróðir sínum. Segir hann það hafa verið rosalega skemmtilegt sem krakki að keppa á móti eldri bróðir sínum í honum.

„Sem framhaldsskólanemi er rosalega leiðinlegt að vera rosalega fær í einum leik, en geta ekki keppt í þessu framhaldsskólamóti,“ segir Egill og nefnir að hann væri til í að sjá keppt í Overwatch í Framhaldsskólaleikum Rafíþróttasamtaka Íslands, FRÍS.

„Markmiðið einmitt núna er bara að komast lengra með BMC, verða betri lýsandi og verða bara betri í leiknum almennt!“

Leikurinn sem kom þeim á kortið

Egill segir uppáhaldsminninguna sína úr faginu hljóta að vera leikur Tröll og Böðla úr öðru tímabili Almenna Bikarsins, þegar hann og liðsfélagar hans í Tröll náðu að vinna „risana úr Böðlum“ með 3-2 sigri.

„Þetta var leikur sem enginn var að búast við að myndi fara svona. Þetta var leikurinn sem setti mig og Tröll á kortið sem alvöru lið.“

Sínar eigin klappstýrur

Að lokum minnist hann sérstaklega á alla þá sem hafa staðið við bakið á honum í gegnum þetta og þakkar þeim.

„Mamma mín, pabbi minn og bróðir eru alltaf að horfa á leikinn inni í stofu á meðan ég sit inni í herbergi að spila! Maður þarf að hafa klappstýrur sér við hlið til að komast langt í þessum heimi.“

Hægt er að fylgjast með Agli spila á Twitch-rásinni egilllari en þar streymir hann endrum og sinnum frá sér þegar hann spilar. Eins er hægt að fylgjast með Agli og hvað hann er að gera með því að fylgja honum á Twitter undir nafninu EgillAri.

Vilt þú vera leikmaður vikunnar? Sendu okkur skeyti á vidja@mbl.is !

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert