Hanna íslenskan leik í opnum heimi

Erla Óskarsdóttir og Hrafnkell Þorri.
Erla Óskarsdóttir og Hrafnkell Þorri. Eggert Jóhannesson

Þrír Íslendingar vinna að gerð nýs tölvuleiks, Wake World, en það er hlutverka- og ævintýraleikur sem fer fram í opnum heim.

Í Wake World eru leikmenn settir í hlutverk landkönnuða, þar sem þeir fá m.a. að ferðast um heiminn, kanna ýmsa staði og taka að sér fjölbreytt verkefni. Leikmenn geta valið um að spila leikinn sem einspil eða spilað með allt að þremur öðrum.

Nýr heimur í kjölfar heimsendis

„Hugmyndin á bakvið heiminn í Wake World er sú að hann hefur farið í gegnum heimsendi, sjávarmálið hefur hækkað gríðarlega og vegna þess er Wake World þakinn allskonar eyjum í staðinn fyrir risa lönd sem voru þar ekki áður,“ segir Erla Óskarsdóttir, þróunaraðili leiksins ásamt Hrafnkeli Þorra og Eiði Rafni.

„Hlýnun jarðar var aðal innblástur þessarar hugmyndar en í söguþræðinum er ekki farið nákvæmlega í það hvað olli þessu,“ bætir Erla við og segir leikmenn í raun hafa frelsi til þess að gera það sem þeir vilja og þurfa ekki endilega að fylgja söguþræðinum.

Skjáskot úr tölvuleiknum Wake World.
Skjáskot úr tölvuleiknum Wake World. Grafík/Wake World

Stefna að útgáfu eftir útskrift

Hugmyndin um Wake World kviknaði þegar að Hrafnkell var að dunda sér við að búa til einskonar Sea Of Thieves hermi síðasta sumar. Gekk Erla þá til liðs við Hrafnkel og hafa þau verið að vinna í leiknum í um það bil hálft hár.

Teymið leggur mikinn metnað í Wake World og ákvað að taka enga sumarvinnu að sér í ár og mun í staðinn einbeita sér að þróun leiksins. Hrafnkell og Erla eru að læra tölvunarfræði við Háskólann í Reykjavík og stefna að útskrift í janúar á næsta ári. Hafa þau að markmiði að gefa Wake World út rétt eftir útskriftina.

Aldrei áður gefið út leik

Erla og Hrafnkell vinna aðallega í leiknum og sjá um forritunina, uppsetningu heimsins og allt annað sem þarf að gera við þróun tölvuleikja en Eiður Rafn hefur verið að hjálpa þeim við að búa til þrívíddarmódel fyrir leikinn.

Ekkert af þeim hafa gefið út tölvuleik áður en Erla og Hrafnkell hafa gert ýmsa leiki í gegnum skólagönguna. Til dæmis tóku þau áfanga á síðustu önn þar sem þau höfðu tvær vikur til þess að búa til leik.

Voru þau þá fjögur saman í hóp og bjuggu til leik þar sem allt að fjórir geta spilað saman og þurfa að berjast við múmíur í miðjum pýramída. Hægt er að nálgast þann leik með því að fylgja þessum hlekk.

Hægt er að fylgjast með þríeykinu og þróun Wake World á ýmsum stöðum og má finna þá í gegnum þetta tenglatré.

Erla Óskarsdóttir og Hrafnkell Þorri.
Erla Óskarsdóttir og Hrafnkell Þorri. Eggert Jóhannesson
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert