Yfir 700 tölvuleikir í boði með áskrift

PlayStation Plus-áskriftaþjónusta.
PlayStation Plus-áskriftaþjónusta. Skjáskot/PlayStation

Í kjölfar sögusagna og leka hefur PlayStation nú opinberlega tilkynnt um næstu kynslóð PlayStation Plus-áskriftaleiðarinnar sem kemur út í júní á þessu ári.

Endurútgáfa PlayStation-áskriftarþjónustunnar mun sameina fríðindi PlayStation Plus og PlayStation Now.

Þrennskonar áskriftarleiðir

Áskriftin verður aðgengileg í þrennskonar formum; Playstation Plus, PlayStation Plus Extra og PlayStation Plus Premium.

Hefðbundna PlayStation Plus-áskriftin mun haldast óbreytt og kosta um 60 bandaríkjadali á ári, en það gera rétt rúmar 7.600 íslenskar krónur.

PlayStation Plus Extra mun kosta hundrað bandaríkjadali fyrir árið eða 15 dali fyrir mánuðinn, það gera tæpar 2.000 íslenskar krónur á mánuði og tæpar 13.000 krónur fyrir árið. Í þeirri áskrift má búast við aðgengi að allt að 400 tölvuleikjum.

Í kringum 700 tölvuleiki

Dýrasta áskriftarleiðin sem boðið verður upp á er PlayStation Plus Premium. Hún kostar 120 bandaríkjadali fyrir árið eða 18 dali fyrir mánuðinn. Það gera rúmar 15.000 íslenskar krónur fyrir árið og 2.300 krónur fyrir mánuðinn.

Með henni fá áskrifendur þó aðgang að allt að 340 auka tölvuleikjum auk allra fríðinda og leikja sem fyrrnefndu áskriftarleiðir bjóða upp á. Mega áskrifendur því búast við aðgengi að 700 tölvuleikjum til eða frá.

Nánar um áskriftarleiðir PlayStation má lesa í bloggfærslu frá fyrirtækinu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert