Farartæki íslenskra almannavarna í tölvuleik

Patrekur Bjarni hannar faratæki innan tölvuleikjanna GTA 5 og FiveM …
Patrekur Bjarni hannar faratæki innan tölvuleikjanna GTA 5 og FiveM sem líta út eins og faratæki á vegum almannavarna. Grafík/Patrekur Bjarni

Fjöldinn allur af Íslendingum spilar tölvuleiki og eru einstaklingar sem starfa innan almannavarna engin undantekning þar. 

Patrekur Bjarni Þorbjargarson hefur unnið hörðum höndum við að búa til „mod“ fyrir lokaðan hóp í tölvuleiknum FiveM.

Hópurinn samanstendur af fólki sem starfar innan almannavarna á Íslandi en moddin eru þess eðlis að ýmis tæki sem heyra undir almannavörnum, allt frá bílum til báta, eru spilanleg innan tölvuleiksins.

Geta því leikmenn farið í hlutverkaleiki með upplifun sína innan starfsins og virðast þau hafa mjög gaman að því.

Með því að styrkja góðgerðarsamtök

Moddin eru þó ekki bundin við fólkið sem starfar í almannavörnum heldur getur almenningur nálgast einhver af þessum moddum með því að styrkja góðgerðarsamtök að eigin vali, svo lengi sem þau eru ekki rekin í hagnaðarskyni. Einnig er hægt að notast við moddin í tölvuleiknum GTA 5.

„Hugmyndin kom upp eftir að ég hjálpaði sænskum modderum að gera slíkt hið sama,“ segir Patrekur í samtali við mbl.is en hann sér um þetta einsamall.

Hægt að styrkja ýmis góðgerðamál

Frá því í desember hafa 23 þúsund krónur runnið til góðgerðarsamtaka í skiptum fyrir moddin hans Patreks. 

Hægt er að fylgjast nánar með þessu á Discord en þar má einnig finna hlekki að góðgerðarsamtökum sem hægt er að styrkja. Allt frá stökum styrkjum til björgunarsveita að meðferðarheimila en fólki er frjálst að velja hvert styrkurinn fer.

Einnig birtir Patrekur stundum myndir af hönnunum sínum á Tölvuleikjasamfélagið á Facebook. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert