Setur upp íslenska netþjóna

Skjáskot úr Ark: Survival Evolved á íslenskum netþjóni.
Skjáskot úr Ark: Survival Evolved á íslenskum netþjóni. Skjáskot/Aðsent

Jón Konráðsson, einnig þekktur undir nafninu Asmodeus Cruentus, er faðir fjögurra barna - þar af með þrettán mánaða tvíbura - og stundar fulla vinnu. Samhliða því sinnir hann tölvuleikjum og öðrum verkefnum tengdum þeim af kappi.

Asmodeus hefur eytt miklum tíma í tölvuleiki og spilað „allt frá einföldum leikjum eins og Left 4 Dead upp í 7 Days To Die“. Hefur hann því mikla reynslu á tölvuleikjum sjálfur.

Jón Konráðsson, einnig þekktur sem Asmodeus Cruentus, með páfagauk á …
Jón Konráðsson, einnig þekktur sem Asmodeus Cruentus, með páfagauk á öxlinni. Ljósmynd/Aðsend

Setur upp netþjóna

Auk tölvuleikjaspilunar hefur hann sett upp ýmsa netþjóna í fjölbreyttum tölvuleikjum. Má þar nefna netþjóna í tölvuleikjunum Ark: Survival Evolved, 7 Days To Die, The Forest, Minecraft og fleiri sem hann hefur gert fyrir vini sína og vini þeirra.

Núna nýlega bjó hann til netþjón í tölvuleiknum Ark í samstarfi við Spicy Vanilla, þar sem Asmodeus hefur umsjón með stillingum og eftirfylgni en Spicy Vanilla á búnaðinn.

Þægilegt en erfitt

Netþjónninn er einungis ætlaður Íslendingum sem vilja spila á Ark-netþjón sem „er með smá mods, en ekkert brjálað og lífið er dálítið þægilegt, en samt erfitt“.

Fyrir Asmodeus er leikurinn einskonar Soulsborn tegund af lífsbjargarleikjum (e. Survival games).

IP-tala netþjónsins er Spicyvanilla.is en á Discord-rás Spicy Vanilla má einnig nálgast íslenskan Minecraft-netþjón.

Yfir tvö þúsund klukkustundir

„Ark finnur þessa leið til að draga mig og vini mína aftur í hann alveg sama hversu mikið við höfum bölvað þessum leik og gargað og rage-quitað,“ segir Asmodeus í samtali við mbl.is.

Asmodeus hefur spilað í fleiri en tvö þúsund klukkustundir í Ark en það var þegar hann var í svokölluðu „Mega Tribe“ á opinberum netþjónum.

„Það var algjör vinna í sjálfu sér, þar sem margir hópar á mörgum serverum sameinast í bandalag og gjörsamlega taka yfir heilu opinberu netþjónana.“

Þá höfðu allir leikmenn sínum skyldum að framfylgja í hópnum og þurftu að vinna sig upp til þess að fá aðgang og leyfi fyrir hinu og þessu.

Skjáskot úr Ark: Survival Evolved á íslenskum netþjóni.
Skjáskot úr Ark: Survival Evolved á íslenskum netþjóni. Skjáskot/Aðsent

Gaf undirmönnum fyrirmæli

Á þessum tvö þúsund klukkustundum vann hann sér inn fyrir titlinum „Lieutenant Colonel“ sem er einskonar „undir-ofursti“ segir Asmodeus. Þá stýrði hann yfir hundrað leikmönnum og gaf þeim einhverskonar fyrirmæli.

„Stuttu seinna lenti kjarninn af okkar hópi í því sem kallast „Insiding“ en það er ekkert annað en það sem yrði kallað landráð. Einhver einstaklingur sagði óvinum okkar sérstakan leynikóða og upplýsingar um árásarplön okkar sem voru í vinnslu. Þá var í sjálfu sér tekinn hausinn af snáknum og allt hrundi fyrir okkur eftir það.“

„Þá tók ég mig til og hætti, því ég hafði bara ekki tíman í svona endurbyggingu og fleira.“

Fór í önnur verkefni

Í framhaldi af því fór Asmodeus að beina athygli sinni að óopinberum netþjónum, þar sem hægt er að bæta við moddum. Setti hann þar inn hina og þessa hluti, breytti stillingum til þess að gera leikinn ýmist auðveldari eða erfiðari.

Breytingar fólust að mestu leyti til í fjölgun á risaeðlum eða byggingarefni innanleikjar.

„Já… Það er kjarninn á Ark… Það ert ÞÚ á móti risaeðlum.“

Asmodeus er um þessar mundir að undirbúa streymi á ný, en hann mun byrja að streyma á Twitch-rásinni sinni eða taka upp myndbönd fyrir YouTube-rásina sína núna í apríl.

„Þetta er eitthvað sem mig langar að gera sem áhugamál, því ég hef einstaklega gaman að þessu.“

mbl.is