Bestu lið Íslands mætast um helgina

Stórmeistaramótið í Counter-Strike: Global Offensive er á vegum Rafíþróttasamtaka Íslands.
Stórmeistaramótið í Counter-Strike: Global Offensive er á vegum Rafíþróttasamtaka Íslands. Grafík/Rafíþróttasamtök Íslands

Stórmeistaramótið í Counter-Strike: Global Offensive er að renna í garð en fyrsta viðureign mótsins hefst á laugardaginn.

Mótið er haldið af Rafíþróttasamtökum Íslands en það er síðasti liðurinn í mótaseríu sem samanstendu af Opna Mótinu, Áskorendamótinu og svo Stórmeistaramótinu.

Hvaða lið sem er gat spilað sig upp

Öll lið gátu skráð sig til leiks í Opna Mótið og unnið sig upp í Áskorenda- og Stórmeistaramótið með því að ná einhverju af efstu fjóru sætunum í Opna- og Áskorendamótinu.

Efstu fjögur lið Opna Mótsins héldu áfram í Áskorendamótið þar sem þau mættu neðstu fjórum liðum Úrvalsdeildarinnar.

Þau lið sem náðu einhverju af efstu fjóru sætunum í Áskorendamótinu halda svo áfram í Stórmeistaramótið og mæta þar efstu fjóru liðunum úr Úrvalsdeild Ljósleiðaradeildarinnar.

Átta bestu á Íslandi

Áskorendamótið kláraðist fyrir páska og er því næst á dagskrá Stórmeistaramótið.

Þar keppa átta af bestu liðum Íslands um Stórmeistara-titilinn sem og þátttökurétt í umspilsmóti fyrir Blast Series sem fer fram í haust.

Liðin sem keppa á Stórmeistaramótinu eru:

Ten5ion

SAGA

XY

BadCompany

Dusty

Þór

Vallea

Ármann

Leikjatré Stórmeistaramótsins í Counter-Strike: Global Offensive lítur svona út.
Leikjatré Stórmeistaramótsins í Counter-Strike: Global Offensive lítur svona út. Grafík/Rafíþróttasamtök Íslands

Þekkja spilahætti hvors annars

Hér að ofan má sjá hvernig leikjatréð lítur út en um helgina, bæði á laugar- og sunnudaginn, verður spilað upp á sæti í undanúrslitum en þau fara fram á föstudaginn, 29. apríl.

Ármann og SAGA hefja mótið er þau mætast á laugardaginn, klukkan 18:15, í fyrstu viðureign Stórmeistaramótsins.

Bæði liðin spiluðu í Úrvalsdeildinni. Ármann hampaði fjórða sæti Úrvalsdeildarinnar og tryggði sér með því sæti í Stórmeistaramótinu en SAGA náði því sjötta og spilaði sig því upp úr Áskorendamótinu.

Eru liðin því allkunnug um getu og spilahætti hvors annars eftir að hafa spilað saman á síðasta tímabili í Úrvalsdeild Ljósleiðaradeildarinnar og reynir nú aftur á þau.

Áhugaverð barátta tveggja liða

Því næst taka Dusty og BadCompany við músinni og spila klukkan 21:00 sama kvöld en þar  mætast stálin stinn.

BadCompany hefur sannað styrk sinn í gegnum mótaröðina með því að vinna sig upp úr Opna Mótinu og alla leið inn í Stórmeistaramótið.

Dusty eru núverandi deildarmeistarar og hafa auk þess keppt á erlendum mótum með góðum árangri, er því ljóst að Dusty er ekkert lamb að leika við. 

Hefur sannað sig

Á sunnudaginn, 24. apríl, heldur baráttan áfram en það eru liðin Vallea og Ten5ion sem spila fyrri viðureign dagsins.

Vallea og Ten5ion mætast klukkan 18:15 og leggja til kapps um sæti í undanúrslitum en Ten5ion hefur, líkt og BadCompany, sýnt fram á óvæntan styrk með því að vinna sig upp úr Opna Mótinu á Stórmeistaramótið.

Vallea er eitt af fjórum efstu liðum Úrvalsdeildarinnar sem keppir á Stórmeistaramótinu en það hampaði þriðja sætinu í Úrvalsdeild Ljósleiðaradeildarinnar. 

Mætast á ný

Klukkan 21:00 sama dag munu liðin Þór og XY spila síðustu viðureign þessa holls og þreyta skot um síðasta sætið í undanúrslitum. 

Liðin spiluðu bæði í Úrvalsdeild Ljósleiðaradeildarinnar en Þór hafði tryggt sér sæti í Stórmeistaramótinu með því að hampa öðru sæti í Úrvalsdeildini. 

Litlu mátti þó muna að XY hefði tryggt sér sæti í mótinu á sama hátt og Þór en XY lenti í fimmta sæti í Úrvalsdeildinni, sem tryggði liðinu sæti í Áskorendamótinu. XY gaf ekkert undan þar og hélt ótrautt áfram í Stórmeistaramótið.

Allar viðureignir verða sýndar í beinni útsendingu á Twitch-rás Rafíþróttasamtaka Íslands sem og á Stöð2 Esports.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert