Momoa til umræðu sem aðalhlutverk

Jason Momoa sem Aquaman.
Jason Momoa sem Aquaman.

Kvikmyndastjarnan Jason Momoa er til umræðu hjá Warner Bros sem aðalhlutverk í Minecraft-tölvuleikjamynd, en hann er þekktastur fyrir hlutverk sín í kvikmyndinni Aquaman og þáttaröðinni Game of Thrones.

Kvikmyndaverið tilkynnti um verkefnið fyrir u.þ.b þremur árum síðan í samstarfi við þróunaraðila Minecraft, Mojang Studios. Í framhaldi af ítrekuðum seinkunum á myndinni var framtíð hennar afar óljós.

Þekkt nöfn á bakvið myndina

Hinsvegar virðast hlutirnir vera að falla í réttar skorður núna og lítur út fyrir að myndin sé í vinnslu, og þá með Jason Momoa í aðalhlutverki.

Samkvæmt The Hollywood Reporter mun Jared Hess leikstýra myndinni en hann er þekktastur fyrir kvikmyndirnar Napoleon Dynamite og Nacho Libre.

Handritið er samið af Hubbel Palmer og Chris Bowman en Mary Patent, sem framleiddi kvikmyndina Dune, og Roy Lee munu framleiða myndina. Jill Messick mun einnig fá lof fyrir þróun kvikmyndinnar en hún lést árið 2018.

Auk þeirra munu Lydia Winters og Vu Bui, frá Mojang Studios sem framleiðir Minecraft, einnig standa á bakvið framleiðslu kvikmyndinnar.

Langur tími liðinn

Nokkur ár eru síðan átti að færa Minecraft yfir á hvíta tjaldið, en Minecraft-myndin hefur verið föst á þróunarstigi frá því á síðasta áratug. Aðdáendur leiksins fögnuðu mikið þegar tilkynnt var fyrst um verkefnið fyrir þremur árum síðan en myndin átti að koma út 4. mars 2022.

Allt kom fyrir ekki, þar sem að verkefnið fór aldrei í framkvæmd og í kjölfar vandamála í kringum faraldurinn var útgáfudagur kvikmyndinnar gefinn til Matt Reeves.

Matt Reeves gaf út Batman-myndina 4. mars í síðasta mánuði og hljóðar hagnaður hennar úr miðasölu upp á 750 milljónir Bandaríkjadali, en það gera rúma 97 milljarða íslenskra króna.

Áhugavert verður að fylgjast með hvort að framleiðsla á Minecraft-myndinni fari af stað nú þar sem hún er að öllum líkindum komin með leikara í aðalhlutverkið.

mbl.is