Úrslitahelgi Masters Reykjavík hafin

Liðsmenn LOUD stilla sér upp fyrir Masters Reykjavík 2022.
Liðsmenn LOUD stilla sér upp fyrir Masters Reykjavík 2022. Ljósmynd/Lance Skundrich/Riot Games

Úrslitahelgi í Masters Reykjavík er gengin í garð eftir þriggja daga hvíld, en í kvöld verða spilaðar tvær síðustu viðureignir fyrir undanúrslit og úrslit.

Undanfarinn mánuð hafa nokkur af bestu liðum heims verið að keppa á stórmótinu Masters Reykjavík í Laugardalshöllinni en þar er keppt í tölvuleiknum Valorant frá Riot Games.

Öll augu á Íslandi

Milljónir áhorfenda úr öllum heimshornum fylgjast grannt með mótinu í beinni útsendingu og með því er Ísland á allra vörum um þessar mundir. Þetta er í fjórða sinn sem að Riot Games blæs til stórmóts hér á landi og hefur Ísland haft vel upp úr því fjárhagslega sem og til auglýsingar um landið.

Liðin OpTic Gaming, LOUD, Zeta Division og Paper Rex hafa öll tryggt sér sæti á meðal þeirra fjögurra efstu á mótinu en í kvöld verður skorið úr um hvaða lið spila upp á fyrsta sætið á sunnudaginn. 

Mikilvægar viðureignir í kvöld

Fyrri viðureign kvöldsins hófst núna klukkan 17:00 en það eru liðin OpTic Gaming og LOUD sem stigu á sviðið og hófu keppnisdaginn.

Heitt verður í hamsi þar sem að sigurvegari viðureignarinnar mun halda áfram í úrslitaviðureignina á sunnudaginn og þá keppa við annaðhvort Zeta Division eða Paper Rex.

Í framhaldi munu liðin Zeta Division og Paper Rex taka við músinni og spila seinni viðureign kvöldsins klukkan 20:00.

Pressan er gífurleg á öllum liðum og óhætt er að segja að spennan sé í hámarki nú á lokaspretti mótsins. 

Næstum því 90 milljónir í verðlaun

Verðlaunapotturinn býr að 675.000 bandaríkjadölum, en það gera 87,4 milljón íslenskar krónur.

Potturinn skiptist niður á milli þeirra átta liða sem keppa á mótinu en FunPlus Pheonix, sem komst ekki á mótið vegna ferðatakmarkana fær einnig greitt. FPX fékk 25.000 bandaríkjadali, sem jafngildir rúmum 3,2 milljónum íslenskra króna.

Í stað FunPlus Pheonix keppti Team Liquid á mótinu og lenti í sjöunda og áttunda sæti með The Guard.

Tæpar 26 milljónir fyrir fyrsta sætið

Sem fyrr segir, er verðlaunapotturinn á níunda tug millljóna króna og hlýtur Meistari mótsins, liðið sem hampar fyrsta sætinu, hvorki meira né minna en 200.000 dali, en það gera tæpar 26 milljónir króna.

Annað sætir hlýtur 120.000 dali, sem gera 15,5 milljónir og eftir viðureign kvöldsins verður ljóst hvaða tvö lið keppa á sunnudaginn um verðlaun fyrsta og annars sætis.

Liðið í þriðja sæti fær 85.000 dali eða 11 milljónir íslenskra króna og það fjórða fær 65.000 dali, sem gera tæplega 8,5 milljónir króna. Keppt verður upp á þriðja og fjórða sæti á morgun.

Hægt er að fylgjast með viðureignum kvöldsins á Twitch-rásinni VALORANT eða einfaldlega hér að neðan.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert