Spilar ekki til að vera bestur

Stefán Daði Ólafsson.
Stefán Daði Ólafsson. Ljósmynd/Aðsend

Stefán Daði Ólafsson er 32 ára tölvuleikjaspilari úr Grafarvoginum, en hann er einnig þekktur undir nafninu „Talodax“.

Stefán hefur spilað mikið í herkænskuleiknum Total War undanfarin ár en sá leikur spilast að mestu leyti í rauntíma. Hinsvegar hefur útgáfa Elden Ring fangað hug og hjörtu margra, þar á meðal Stefáns en hann segir leikinn hafa „alla sína athygli núna“.

Elden Ring efst í huga

„Elden Ring reynslan er búin að vera svo skemmtileg að það verður erfitt að reyna eitthvað annað, en ég ætla að prófa Ghost of Tsushima eða Dark Souls-seríuna næst,“ segir Stefán í samtali við mbl.is.

Þó að hann sé ekki búinn að klára Elden Ring, segir hann leikinn hafa „rekið Skyrim úr fyrsta sæti og komið sér vel fyrir þar“ en Skyrim var áður uppáhalds leikur Stefáns.

Spurður hvernig nafnið Talodax varð til, segir Stefán að markmiðið hafi verið að koma sér upp um nafn sem væri „hans eigið“.

„Ég var að hugsa mér eitthvað nafn sem er „mitt“ en ekki endilega eitthvað sem margir nota, og eftir nokkrar tilraunir kom Talodax fram.“

Klassískir leikir spilaðir

Fyrsti leikurinn sem hann fékk að spila var Mega Man en þá hafði frændi hans í Hveragerði leyft honum að prófa leikinn.

Þegar hann byrjaði svo að spila heima hjá sér, spilaði hann á SEGA-tölvu. Voru þá hinir klassísku leikir eins og Sonic og Mortal Kombat spilaðir af kappi. En með tímanum fór hann úr leikjatölvum og hóf að spila meira á PC-tölvum.

Ekki til að verða bestur, heldur til að njóta

Stefán leggur áherslu á að spila sér til skemmtunar og reynir þá að skemmta sér eins vel og hann mögulega getur. Fyrir vikið hefur hann alltaf notið þess að spila og gerir það þá í góðum vinahóp.

„Það er alltaf skemmtilegast að spila með öðrum, oftast þegar ég er að spila einspilunar leiki þá er ég að deila skjánum með einum eða tveimur vinum og spjalla á meðan,“ segir Stefán.

„Engin æfingarútína hér. Ég spila ekki til að vera bestur, bara til að skemmta mér.“

Margar kærar og heldur áfram að safna

Spurður út í sínar kærustu minningar úr tölvuleikjaheiminum segir hann erfitt að velja einhverja eina, en það séu margar sem koma til greina.

„Það er margt sem kemur til greina, en að vinna Divinity Original Sin 2 í Honor-ham eftir ótrúlega skemmtilega spilun og langt LAN er það sem stendur upp úr,“ segir Stefán.

Stefnir hann því á að halda áfram að bæta við fleiri góðum minningum, en „þær eru ótrúlega margar, og hann ætlar að halda áfram að safna“.

Sem stendur er hann ekki að streyma til annarra en sinna vina þegar þeir spila, hvað streymi varðar segist hann „láta þá bestu um það“.

mbl.is