Heimsmet í Football Manager slegið

Football Manager hefur lifað í mörg ár.
Football Manager hefur lifað í mörg ár. Grafík/Sports Interactive

Tölvuleikurinn Football Manager kann að hljóma kunnuglega í eyrum margra, en hann kom fyrst út árið 1992, þá sem Championship Manager. Hefur nú verið slegið nýtt heimsmet í leiknum, en Pawel Sicinski hefur spilað lengsta staka leikinn í Football Manager.

Pawel Sicinski er fótboltaþjálfari í Póllandi sem nú er kominn í heimsmetabók Guinness. Hann spilaði sama leikinn í 416 ár og 134 daga, þá innanleikjar.

416 ár í boltanum

Hann byrjaði leikinn þann 4. janúar árið 2018 og lauk leiknum ekki fyrr en 18. maí árið 2434. Á þessum 416 árum og 134 dögum innanleikjar hafði hann aðeins tekið sér 260 frídaga.

Þetta gera 460 fótboltatímabil, en á meðan þessum tíma stóð segist Sicinski hafa tekist að vinna 1.258 bikara, spila 22.300 viðureignir og að skora 58.900 mörk. Það gera um 2.64 mörk í hverjum leik samkvæmt Gamesradar.

Fyrri methafi þýskur

Fyrri methafi var Sepp Hedel, frá Þýskalandi, en hann hafði spilað 333 tímabil og bjó að 1.940 rauntíma klukkustundum af spili.

Hann hafði skorað 42.672 mörk þegar hann tók við verðlaununum árið 2019. Eins hafði hann unnið 258 deildartitla, unnið 729 bikara og 1028 verðlaun.

mbl.is