Streymir fyrir Píeta og gefur vinninga

Óla Blöndal, einnig þekkt sem olalitla96.
Óla Blöndal, einnig þekkt sem olalitla96. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Streymarinn Óla Blöndal mun blása til góðgerðarstreymis en áhorfendur hennar fengu að velja hvert ágóðinn færi að streymi loknu.

Á miðvikudeginum 4. maí, klukkan 12:00, mun Óla kveikja á myndavélinni og hefja streymið. Mun hún fá til sín nokkra gesti á meðan streymi stendur og verða bæði spilaðir tölvuleikir sem og gjafaleikir fyrir áhorfendur. 

„Mig hefur alltaf langað til þess að gera þetta sjálf, en þurfti bara að finna sjálfstraustið til þess,“ segir Óla í samtali við mbl.is.

Vantar ekki gestaganginn

Meðal gesta sem von er á í streyminu eru Marín Eydal Sigurðardóttir, betur þekkt sem Mjamix, en hún sér um þáttinn Gameveran hjá GameTíví.  Svandís Þóra Kristinsdóttir mun einnig láta á sér bera, en hún er einnig þekkt sem BooTang93.

Tvær aðrar vinkonur Ólu munu líka koma fram í streyminu, þær Auður Kristín Gunnarsdóttir, einnig þekkt undir listamannanafninu Ausitaus, og Hrafnhildur Guðmundsdóttir. Báðar hafa komið fram í streymum Ólu, en þá streyma þær frá sér að mála og spjalla við áhorfendur. 

Málverk sem Ausitaus málaði mun svo fara á uppboð í streyminu, en allur ágóðinn af því rennur í sama sjóð og fer því til Píeta Samtakanna.

Mun gefa áhorfendum fjölda vinninga

Óla mun einnig gefa hina ýmsu vinninga til áhorfenda, má nefna gjafabréf fyrir tvo á Sky Lagoon, tíu bíómiða, tvö gjafabréf hjá rafíþróttahöllinni Arena, gjafabréf fyrir tvo á lansetrinu Ground Zero.

Eins mun hún gefa gjafabréf í Nexus, tvær útimyndatökur hjá ljósmyndara og sérstaka peysu sem hún selur sjálf á varningssíðunni sinni.

Auk veglegra vinninga verða spilaðir tölvuleikir með áhorfendum, eins og kemur fram hér að ofan. Óla mun spila leiki eins og Gartic Phone og Crab Game, en þá geta áhorfendur og aðrir sem vilja taka þátt spilað með. 

„Var að hugsa um að þeir sem vinna í þeim leikjum fá einhverja vinninga líka,“ segir Óla.

Allt bleikt hjá Ólu Blöndal.
Allt bleikt hjá Ólu Blöndal. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Beint í djúpu laugina

Stefna Ólu er að halda streyminu gangandi eins lengi og hún mögulega getur til þess að safna eins miklu og hún getur fyrir Píeta Samtökin, en áherslan á skemmtun áhorfenda er ekki síðri að sögn Ólu.

Streymið verður íslenskumælandi að mestu en þar sem að meirihluti fylgjenda hennar eru erlendir þá má búast við því að hún spjalli eitthvað á ensku.

„Ég hef aldrei verið mjög góð í að skipuleggja hluti, og er svolítið að henda mér í djúpu laugina með þetta því ég hef alltaf verið með frekar lítið sjálfstraust. En þegar allt kemur til alls, er þetta mjög gott málefni og verður alveg þess virði.“

Mikil vinna er á bakvið svona streymi en Óla segist ekki vera ein á báti með tæknilegu atriðin. Hún er með nokkra „svokallaða moderators“ en þeir aðstoða hana stundum við tæknileg atriði við streymun. 

Verið hjálpsamur innan samfélagsins

„Það verður einn af mínum svokölluðu moderators að hjálpa mér og verður svona á hliðarlínunni, hann kemur kannski fram líka ef hann vill og ætlar að gefa frá sér eitthvað af sínum varning,“ segir Óla.

Umræddur maður, Hlynur Hafsteinsson, er einn af góðum vinum hennar sem hún fékk að kynnast í gegnum streymisveituna Twitch, segir hún hann hafa hjálpað sér og mörgum öðrum í tengslum við veituna.

Streymið fer fram á Twitch-aðgangi Ólu, olalitla96, og hefst klukkan 12:00 á miðvikudaginn.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert