Stórmeistarar ársins krýndir

Dusty hljóta bikur fyrir sigur á Stórmeistaramótinu 2022.
Dusty hljóta bikur fyrir sigur á Stórmeistaramótinu 2022. Ljósmynd/Rafíþróttasamtök Íslands

Eftir harða baráttu í Stórmeistaramótinu, þar sem allra bestu leikmenn Íslands keppa í Counter-Strike: Global Offensive, voru nýjir Stórmeistarar krýndir.

Úrslitaviðureign mótsins fór fram um helgina í Arena, en þar spiluðu Dusty og Þór upp á fyrsta sætið í mótinu og jafnframt keppnisrétt í umspilsmót fyrir umspilsmót í Blast Series.

Bæði liðin spiluðu af miklu kappi en þegar uppi var staðið hafði Dusty betur af.

Deildarmeistarar hrepptu bikarinn

Dusty eru núverandi deildarmeistarar Ljósleiðaradeildarinnar, sem leið undir lok rétt fyrir Opna-, Áskorenda og Stórmeistaramótið. Var því viðbúið að liðið yrði hart í horn að taka og sannaði liðið sig með því að hreppa bikar Stórmeistaramótsins.

Til mikils var að vinna, en eins og fyrr var getið þá veitti sigur á Stórmeistaramótinu keppnisrétt í umspilsmóti fyrir Blast Series.

Heldur því Dusty áfram erlendis og fer sem flaggskip Íslendinga í mótið að þessu sinni, en liðið hefur áður sótt í keppnir á erlendri grundu með góðum árangri.

mbl.is