EA og FIFA slíta samstarfi og leikurinn fær nýtt nafn

Skjáskot úr leiknum FIFA 22.
Skjáskot úr leiknum FIFA 22.

Tæplega þriggja áratuga gömlu og afar farsælu samstarfi hefur verið slitið. Tölvuleikjaframleiðandinn Electronic Arts og alþjóðaknattspyrnusambandið FIFA hafa tilkynnt að komið sé að leiðarlokum eftir erfiðar samningsviðræður undanfarna mánuði.

Núverandi samningi, sem átti að líða undir lok eftir heimsmeistaramótið í Katar, var breytt svo hann gildi fram yfir heimsmeistaramót kvenna næsta sumar. Eftir það mót munu 150 milljón FIFA-spilarar svo þurfa að venjast nýju nafni leiksins, EA Sports FC.

Breytist ekki mikið

Leikurinn sjálfur mun ekki breytast mikið, flestar fótboltastjörnurnar og fótboltaliðin verða áfram spilanleg vegna ótengdra samninga sem EA hefur gert við liðin og deildirnar. En heimsmeistaramótið sjálft og annað á vegum FIFA verður fjarlægt úr leiknum.

Milljónir einstaklinga víðs vegar um heiminn tengja FIFA-skammstöfunina við tölvuleikinn í stað sambandsins.

En þessi tegund samstarfs hefur verið mjög ábatasöm fyrir bæði fyrirtækin þar sem leikurinn hefur skilað yfir 20 milljörðum bandaríkjadala í sölu á síðustu tveimur áratugum.

FIFA sóttist eftir því að tvöfalda árlegu greiðsluna frá EA.
FIFA sóttist eftir því að tvöfalda árlegu greiðsluna frá EA. AFP

FIFA vildi tvöfalda greiðsluna

Samningsviðræðurnar hafa þó verið í gangi um þó nokkurn tíma, eins og áður sagði, en illa gekk að semja af fjárhagslegum ástæðum.

FIFA sóttist eftir því að tvöfalda árlegu greiðsluna sína frá EA, sem hljóðaði upp á 150 milljón bandaríkjadali.

Nýjasti samningurinn var undirritaður fyrir 10 árum síðan, en árin þar á milli höfðu ekki aðeins einkennst af miklum tæknibreytingum heldur jafnvel enn meiri umbrotum hjá FIFA, sem nánast hrundi eftir stórt spillingarhneyksli árið 2015.

Gekk ekki að ræða saman

Þegar samræður á milli formanns FIFA og framkvæmdastjóra Electronic Arts skiluðu ekki árangri samþykktu báðar hliðar vinsamlegan aðskilnað, að því er New York Times hefur eftir framkvæmdastjóranum Andrew Wilson.

„Þetta snerist í raun um hvernig við getum gert meira fyrir leikmennina, meira fyrir aðdáendurna, hvernig getum við boðið þeim upp á fleiri leikaðferðir, hvernig getum við fengið fleiri félaga inn í leikinn, hvernig getum við stækkað út fyrir mörk hins hefðbundna leiks,“ segir hann, en hann á að baki langa tengingu við leikinn sjálfur. 

Auk þess að vilja tvöfalda greiðslur frá EA fyrir notkun á FIFA-nafninu, vildi FIFA einnig fá merkið sitt sýnilegra í stafrænum vörum, þar á meðal öðrum tölvuleikjum. Þar dró EA mörkin og mun nú halda áfram með leikinn án samstarfs við FIFA, og undir öðru nafni.

Hallar á FIFA eftir samstarfsslitin

FIFA getur kannað aðra möguleika, en að endurgera leik EA verður ekki auðvelt.

„Ef þú ert að slíta samstarfi sem nær yfir tuttugu ár aftur í tímann, þá verða afleiðingar,“ segir Gareth Sutcliffe, sérfræðingur í tölvuleikjageiranum hjá Enders Analysis.

„EA mun halda áfram sinni vegferð, þau hafa alla tæknilegu snillingana, frumlegu útfærslurnar á algjörlega frábærum fótboltaleik – og hann er frábær. En hvað hefur FIFA? Nafnið sitt, og hvað svo?“

mbl.is