Sérstök Top Gun-uppfærsla fyrir Flight Simulator

Skjáskot úr kynningarstiklu Top Gun-uppfærslunnar í flugherminum frá Microsoft.
Skjáskot úr kynningarstiklu Top Gun-uppfærslunnar í flugherminum frá Microsoft. Skjáskot/YouTube

Fría Top Gun: Maverick-uppfærslan í flugherminum Flight Simulator frá Microsoft fer í loftið þann 25. maí, eða sama dag og Top Gun: Maverick-kvikmyndin með Tom Cruise verður frumsýnd á Íslandi.

Tilkynnt var um uppfærsluna síðasta júní en henni var seinkað vegna þess að Paramount Pictures seinkuðu útgáfu kvikmyndinnar, sem átti að koma út í nóvember á síðasta ári.

„Athugið flugmenn! Þetta er flugstjórinn sem talar. Top Gun: Maverick-upplifunin fer í loftið þann 25. maí í Microsoft flugherminum!“ segir í tísti frá Xbox. 

Fyrstu handar upplifun

Upplýsingar um uppfærsluna eru enn af skornum skammti, hinsvegar hefur verið greint frá því að með uppfærslunni fylgir F-18-flugvél með það markmið að gefa leikmönnum fyrstu handar upplifun af því hvernig er að vera bandarískur Top Gun-flugmaður.

Microsoft Flight Simulator er fyrsti leikurinn í leikjaröðinni sem varð aðgengilegur til spilunar á leikjatölvum, en hann kom út fyrir Xbox í júlí á síðasta ári. Leikurinn býður á að fljúga flugvél í raunverulegu og þrívíddarumhverfi byggðu á gögnum frá Bing Maps.

Leikurinn skartar rauntíma veðráttu og umferð í lofti, en upplýsingarnar fást einnig frá Azure AI-hugbúnaðinum frá Microsoft.

Top Gun: Maverick-uppfærslan fyrir flughermi Microsoft kemur út á Steam og Microsoft-versluninni fyrir Xbox og PC-tölvur.

mbl.is