Hinn eini sanni FIFA verður sá besti

Skjáskot úr leiknum FIFA 22.
Skjáskot úr leiknum FIFA 22. Skjáskot/FIFA 22

Í framhaldi af samstarfsslitum Alþjóða Knattspyrnusambandsins FIFA og tölvuleikjaframleiðandans Electronic Arts, hefur FIFA opinberað áform sín um að halda áfram með fótboltatölvuleiki.

Samstarfsslitin voru opinberuð í gær, en fyrirtækin hafa unnið saman í tæpa þrjá áratugi með tölvuleikjaröðina FIFA.

Síðasti FIFA-leikurinn, eins og við þekkjum hann, verður þá FIFA 23. Electronic Arts hefur nú þegar staðfest nýtt nafn tölvuleiksins, sem verður EA Sports FC. Sá leikur mun halda núverandi leikhömum, fótboltadeildum, mótum og liðum.

Hinn eini sanni FIFA

Nú hefur FIFA tilkynnt um áform sín varðandi tölvuleikinn, en FIFA mun halda einnig áfram að gefa út fótboltatölvuleiki.

„FIFA er um þessar mundir í samskiptum við leiðandi leikjaútgefendur, fjölmiðlafyrirtæki og fjárfesta varðandi þróun á stórum og nýjum FIFA fótboltaleik fyrir árið 2024,“ segir í tilkynningu frá FIFA.

„Ég get fullvissað ykkur um að hinn eini sanni leikur sem ber FIFA-nafnið mun vera sá besti á markaðnum fyrir ykkur tölvuleikjaspilarana og fótboltaaðdáendurna,“ segir Gianni Infantino, forseti Alþjóða Knattspyrnusambandsins.

„FIFA-nafnið er eini alþjóðlegi og upprunalegi titillinn. FIFA 23, FIFA 24, FIFA 25 og FIFA 26 og svo framvegis. Stöðugleikinn er í FIFA-nafninu og hann mun haldast að eilífu SÁ BESTI.“

Nýta vöxt geirans til hins ýtrasta

Infantino segir tölvuleikja- og rafíþróttageirann vera í óviðjafnanlegum vexti ásamt því að búa að mikilli fjölbreytni. 

„Stefna FIFA er að tryggja að við getum nýtt alla framtíðarmöguleika sem best og að tryggja fjölbreytt úrval vörum og tækifærum fyrir tölvuleikjaspilara, aðdáendur, aðildarfélög og samstarfsaðila.“ 

Aukin fjölbreytni í tölvuleikjum frá FIFA var líka staðfest, en í tilkynningunni segir að fjöldi nýrra tölvuleikja, sem ekki verða hermar, séu í vinnslu og að áætlaðar útgáfur þeirra séu síðar á þessu ári.

Fyrsti leikurinn er er sagður búa að „aðsniðinni leikjaupplifun“ í tengslum við heimsmeistaramótið. Ónefnda verkefnið mun færa leikmönnum um heim allan „nýja og gagnvirka upplifun“.

Óhætt er að segja að spennandi tímar séu framundan hjá FIFA og Electronic Arts í komandi baráttu.

mbl.is