Keppt í öðrum bardagaleik um helgina

Rivals of Aether.
Rivals of Aether. Grafík/Dan Fornace

Bardagaleikjasenan á Íslandi einkennist aðallega af Tekken-, Mortal Kombat- og Smash Bros-leikmönnum. Um helgina hinsvegar, fær bardagaleikurinn Rivals of Aether tækifæri til að koma sér fyrir á bardagaleikja-markaðnum á Íslandi.

Erlingur Atli, mótastjóri Zoner's Paradise, ákvað að halda mót í Rivals of Aether en það fer fram í rafíþróttahöllinni Arena næstkomandi sunnudag klukkan 13:00. 

Á Rivals séns í núverandi senu?

„Mig langar að halda mót í honum vegna þess að Smash og Tekken eru einu bardagaleikirnir sem eru með einhverja senu hérna, og mig langar að sjá hvort að Rivals eigi séns!“ segir Erlingur Atli í samtali við mbl.is.

„Ég vil sjá bardagaleiki ná kjölfestu á Íslandi.“

Bardagaleikirnir Tekken og Super Smash Bros Ultimate hafa verið leiðandi í bardagaleikjasenunni á Íslandi og lítið svigrúm fengist fyrir aðra bardagaleiki.

Í hverjum mánuði eru haldin mót í íslensku Super Smash Bros Ultimate-mótaröðinni, Zoner's Paradise og á síðasta ári hélt mbl.is stórt Tekken 7-mót í samstarfi við RÍSÍ, Tölvutek og Smárabíó.

Spilað með eld, vatn, loft og jörð

Rivals of Aether er indí-bardagaleikur sem gerist í heim þar sem samfélög heyja til stríðs með því að kalla saman krafta eldsins, vatnsins, loftsins og jarðarinnar.

Leikmenn velja sér persónu til þess að spila í hringnum og berjast með fyrrnefndum kröftum auk dýrahreyfinga. 

Eins og kemur fram ofar í fréttinni, fer mótið fram í Arena á sunnudaginn. Mótið er opið öllum og hægt er að skrá sig í gegnum þennan hlekk.



mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert