Stuttmyndahátíð fer fram í Fortnite

Stuttmyndahátíðin Short Nite í Fortnite hefst annað kvöld en þetta er í fjórða skiptið sem að slík hátíð fer fram innan tölvuleiksins.

Epic Games sagði viðburðinn bjóða upp á fjölbreyttar teiknaðar stuttmyndir sem hægt verður að horfa á í gegnum tölvuleikinn á morgun. Tíu myndir verða sýndar, þar af eru þrjár alþjóðlegar frumsýningar.

Upprunalega Short Nite fór fram á partí royale-eyju í Fortnite, en viðburðurinn verður sífellt vandaðari og má þá vísa í hrekkjavöku-viðburðinn sem fór fram á síðasta ári.

Bragðað á stafrænu poppi

Í kvöld geta leikmenn hafið undirbúning fyrir hátíðina með því að kaupa sérstaka Fortnite-hreyfingu. Þá geta leikmenn látið persónur sínar borða popp.

Á það að hjálpa til við að gefa leikmönnum raunverulegri bíó-upplifun, en hreyfinguna má sjá í myndbandinu hér að ofan.

Notið með vinum

Þetta árið verða sett upp níu stafræn sýningarhús sem leikmenn geta hoppað á milli í gegnum uppgvötunar-síðuna, en allt að sjö leikmenn geta hópast saman og horft samtímis. 

Viðburðurinn styður við mynd-í-mynd, sem þýðir að leikmenn geta spilað leikinn og horft á stuttmynd á sama tíma.

Short Nite hefst klukkan 18:00 annað kvöld á íslenskum tíma og lýkur á sama tíma mánudaginn 16. maí. Hér að neðan má horfa á kynningarstiklu um viðburðinn.

mbl.is