Ólöglegt atvik en samt skemmtilegt

Hetjurnar Mei og Symmetra í Overwatch.
Hetjurnar Mei og Symmetra í Overwatch. Grafík/Activison Blizzard

Sniðugt kænskubragð rafíþróttaliðsins Florida Mayhem í Overwatch 2 var dæmt ólögleg um helgina, þrátt fyrir að Blizzard hafi haft gaman að því.

Liðið kom liðsmönnum Paris Eternal á óvart með því að fjarflytja sig ofan á húsþak og leggja þaðan til atlögu. Í kjölfarið var umferðin var dæmd ólögleg og þurftu liðin þá að endurtaka hana, en Blizzard viðurkenndi þó að þetta hafi verið skemmtilegt að sjá.

Tvær hetjur í fararbroddi

Kænskubragð Florida Mayhem sneri að hetjunum Mei og Symmetra, en þær hafa ákveðna hæfileika sem hjálpa liðsfélögum að færa sig á milli staða innan kortsins.

Í upphafi umferðarinnar hafði Mei-spilarinn sett upp ísvegg ofan á húsþak skammt frá. Venjulega þarf flatan og stöðugan flöt til þess að byggja ísvegg, en stundum virkar að setja hann upp á ólíklegum stöðum á kortinu. 

Eftir að ísveggur Mei var kominn upp, setti Symmetra-spilarinn fjarflutningsgræju ofan á vegginn til þess að flytja allt liðið ofan á húsþakið. Þannig kom Florida Mayhem andstæðingum sínum á óvart og sýndi þeim hvar Davíð keypti ölið.

Áttu að vita þetta

Skömmu eftir að Blizzard dæmdi atvikið ólöglegt tísti Sean Miller, forstöðumaður Overwatch League, frá því að reglurnar um þetta höfðu verið gerðar skýrar leikmönnum áður en tímabilið hófst.

„Á meðan við skiljum að þetta hafi verið skemmtilegt spil, er staðan sú að nota veggi Mei til þess að komast á ónothæfa staði með fjarflutningi Symmetru er brot á reglum og hefur aldrei verið leyfilegt í OWL-viðureignum. Búið var að gera leikmönnum og liðum grein fyrir því áður en tímabilið hófst,“ segir Miller á Twitter.

Slök á mánudegi

Florida Mayhem tóku atvikinu frekar létt, en daginn eftir birti liðið stríðnislegt tíst sem sýnir frá sjónarhorni Mei þar sem hetjan stendur ofan á þaki og horfir yfir kortið.

„Gleðilegan mánudag tölvuleikjaspilarar, við erum að slaka á og njóta útsýnisins ! Hvernig hafið þið það?“ segir í tístinu.

mbl.is