Ræðir framtíð íslensku LoL-senunnar

Huginn Orri Hafdal hefur þjálfað í League of Legends, starfað …
Huginn Orri Hafdal hefur þjálfað í League of Legends, starfað hjá Rafíþróttasamtökum Íslands og situr nú í mótastjórn LoL á Íslandi. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Íslenska samfélagið í League of Legends deyr ekki ráðalaust þrátt fyrir að Flatadeildin hafi verið lögð niður.

Mótastjórn hefur verið skipuð og er hún nú á fullu í undirbúningi við skipulagningu viðburða, uppbyggingu grasrótarinnar og við að styðja stærri liðin við að sækja erlendis og keppa á stærri vettvangi.

Huginn Orri Hafdal, betur þekktur sem bara Hafdal, segir mbl.is nánar frá þessu öllu saman. En hann er einn þeirra sem sitja í mótastjórn og hefur verið að þjálfa í League of Legends, lýsa leikjum og starfaði jafnframt hjá Rafíþróttasamtökum Íslands.

Breytingar í keppnissenunni

Ýmsar breytingar hafa orðið á keppnissenu League of Legends eftir breytingar hjá Riot Games, en Riot ákvað að skera niður allar minni deildir.

Þá er t.a.m ekki nein sérstök sænsk eða dönsk deild, og þar af leiðandi engin íslensk deild nema undir sérstökum skilyrðum og reglugerðum.

Mótastjórnin stefnir því ekki á að hafa neina úrvalsdeild á Íslandi, eins og Flatadeildin var. Krefst það mikillar aukavinnu og mótastjórn hefur aðrar hugmyndir um uppbyggingu samfélagsins.

Ýta þeim áfram

„Við viljum frekar ýta fólki áfram, fólki sem vill keppa og reyna að gera það að meira en bara áhugamáli, fólk sem vill jafnvel reyna að gera þetta að framtíðarstarfi,“ segir Hafdal í samtali við mbl.is.

Hafdal segir mótastjórn vilja koma þeim liðum áfram á stærri vettvang með því að skrá sig í NLC, sem er í raun Evrópu-deild í League of Legends.

NLC samanstendur af t.d. sænsku og dönsku deildunum sem Riot Games lagði niður, skiptast þær nú upp í marga undirriðla.

Stýra þeim á rétta braut

Deildin byrjar aftur núna í maí og opnaði fyrir skráningu í dag, en sú fyrsta var í byrjun árs og hófst hún á sama tíma og íslenska deildin átti að fara af stað.

Segir Hafdal hana því vera deildina sem þeir sem vilja gera League of Legends að þetta að meira en áhugamáli, ættu að skrá sig í. þegar hafa nokkur íslensk lið skráð sig sig til leiks

„Við erum í raun að fara að hjálpa fólki, sem vill taka meiri þátt í keppnissenunni við að skrá sig og koma sér í það.“

Stærra samfélag en maður heldur

Hafdal segir athyglina þó aðallega beinast að grasrótinni, þá að einbeita sér að heildinni í staðinn fyrir þá fáu sem vilja gera þetta að starfi.

„Við erum að reyna að hugsa um fjöldann í staðinn fyrir bara þetta eina prósent af bestu spilurum landsins,“ segir Hafdal.

„Við vitum að LoL-samfélagið á Íslandi er frekar stórt, það er stærra en maður heldur. Það er bara svo mikið af lokuðum hópum.“

Margir eru því að spila saman í lokuðum hópum, þar sem fimm eða sjö vinir spila saman og vita jafnvel ekki að það séu fleiri vinahópar að spila rétt hjá.

„Við viljum koma öllum spilurunum saman og byggja upp heildina, síðan ætlum við að halda fleiri svona „skemmtilegri mót“ sem er þá ekki endilega átta vikna mót eða svoleiðis.“

Horfa til Overwatch-samfélagsins

Mótastjórn Lol-samfélagsins lítur mikið til Overwatch-samfélagsins í þessum málum, en heildin er einstaklega sterk þar.

Segir Hafdal Overwatch-leikmenn vera duglega að spila saman og nefnir að samfélagið hafi á tíma spilað saman hvern laugardag og eins mættu aðrir til þess að horfa á og vera með.

„Segjum að það sé mót, en þú ert frekar nýr í leiknum og spilar bara til að hafa gaman. Svo eru kannski nokkrir sem vilja vera betri, en þora ekki að keppa og hafa kannski ekki gert það áður,“ segir Hafdal og heldur áfram að útskýra.

„Þá ætlum við að gera eins og Overwatch-samfélagið, að hafa valmöguleikann á að geta skráð sig sem annaðhvort einstakling, eða allt að fimm einstaklinga. Allt þar á milli. Svo verður hægt að blanda í lið.“

Blanda saman leikmönnum

Blandast þá leikmannahópurinn af þeim sem hafa ekki keppt og vita ekki hvar þeir eiga að byrja, en langar til þess - og þeim sem vilja keppa en eru ekki endilega að stefna á að vera bestir.

Þá í raun bara fimm vinir sem spila saman og langar til að keppa við aðra Íslendinga og hafa gaman.

Á þeim mótum var dregið í lið, og spilað saman þrjá til fjóra leiki á laugardagskvöldum, hefur það reynst mörgum spilurum vel. Mbl hefur til dæmis oft fjallað um leikmenn hófu sinn rafíþróttaferil á þennan máta.

„Við munum þá reyna að hafa fleiri lítil mót, hafa gaman og leggja áherslu á fjölbreytileikann. Hafa aðgengi í fararbroddi fyrir alla.“

Með þessu verður grasrótinni „sparkað upp“ og stefnir mótastjórn á að koma upp þjálfurum og öðru fólki sem gæti aðstoðað samfélagsþegna ef eitthvað vantar.

Vilja streyma frá leikjum á íslensku

Hvað varðar stóru liðin á Íslandi í LoL, mun mótastjórn styðja við þau eins og kemur fram hér að ofan. Mun mótastjórn þá hjálpa þeim við að komast á NLC og vinna í að fá leyfi frá Riot til þess að streyma frá þeim leikjum.

Senan mun þá stækka og breiða úr sér á erlendri grundu, þar sem íslensk lið verða ekki alltaf bara að spila á móti öðrum íslenskum liðum.

Ísland á móti heiminum

Horfir Hafdal þá til þess að Íslendingar geti frekar stutt við sína leikmenn í NLC. Til dæmis ef íslenskur leikmaður spilar í annarri deild í NLC, þá yrði lagt upp úr því að horfa á þá leiki og sýna stuðning.

„Í staðinn fyrir að styðja bara við Ísland á móti Íslandi, þá viljum við ýta undir að styðja við Ísland á móti heiminumm,“ segir Hafdal og bætir við að Ísland búi að mörgum flottum leikmönnum sem hafa getuna til að keppa á móti heiminum.

Með þessu segir Hafdal þetta einnig sporna við því að þetta eina prósent af þeim bestu á Íslandi, séu ekki of mikið að „koma og rústa öllum mótum“ hjá grasrótinni, eða á þessum „skemmtilegu mótum“.

„Það er ekkert gott fyrir samfélagið, að það séu alltaf bara sömu fimm sem koma og rústa öllum mótunum. Það er ekkert gaman.“

Fyrirmyndin Flati fær frí

Fram að þessu hefur Hafliði Örn Ólafsson, betur þekktur sem Flati, séð um mest alla vinnuna í kringum LoL-mótin.

Hefur því ekki verið nein sérstök stjórn í kringum þetta fyrir utan hann, og er óhætt að segja að þetta sé fullmikil vinna fyrir einn mann. Hafdal telur tímabært fyrir Flata að fá svigrúm til þess að slaka aðeins á og leyfa þeim að hjálpa honum eins mikið og þau geta.

„Það er kominn tími fyrir Flata að fá að slaka aðeins á og leyfa okkur að reyna að hjálpa honum eins mikið og við getum. Ég meina, við verðum aldrei jafn góð og Flati - Flati er of góður fyrir Ísland ! En við reynum okkar besta að vera eins nálægt Flata og við getum,“ segir Hafdal glettinn.

„Hann verður alltaf hluti af LoL-samfélaginu, en hvort að hann verði partur af mótastjórninni er ég ekki viss. Eins og er, erum við bara að reyna að koma þessu af stað.“

Hafliði Örn Ólafsson, betur þekktur sem Flati.
Hafliði Örn Ólafsson, betur þekktur sem Flati. Ljósmynd/Hafliði Örn Ólafsson

Óvænt en velkomið

Stefna Íslendinga í LoL heldur því áfram upp á við og eru spennandi tímar í framundan. Dagskráin og umgjörðin er enn í mótun en samfélagið og mótastjórn horfir björtum augum á framtíðina.

„Þetta mun taka smá tíma, en ég er mjög spenntur fyrir þessu. Mér var eiginlega hent í þetta,“ segir Hafdal sem varð í raun óvart hluti af mótastjórninni.

Þegar samfélagið tók saman höndum við að skipa nýja mótastjórn og koma senunni aftur af stað, höfðu einstaklingar innan samfélagsins tilnefnt hann til mótastjórnar ítrekað.

„Ég var bara uu já ókei! Mér var svona hent í þetta, ég var samt glaður að þau höfðu nefnt mig á nafn. En ég hef aldrei verið í svona miklu stjórnarstarfi.“

„Mér líður eins og ég hafi alltaf bara verið þjálfari og lýsandi í augum samfélagsins,“ segir Hafdal sem greinilega hafði rangt fyrir sér.

Íslenska LoL-samfélagið er bæði með Discord-rás og Facebook-hóp sem hægt er að óska eftir inngöngu í.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert