Skráning í Norðurlandadeildina opin

NLC er Norðurlandadeildin í League of Legends frá Riot Games.
NLC er Norðurlandadeildin í League of Legends frá Riot Games. Grafík/NLC

Norðurlandadeildin í League of Legends, NLC, er kjörin fyrir þau lið sem vilja komast áfram í atvinnumennskunni en í dag opnaði fyrir skráningu í deildina.

Í kjölfar breytinga Riot Games á League of Legends-mótareglum hefur íslenska senan tekið stakkaskiptum.

Öðruvísi tímar framundan

Flatadeildin var í fyrstu lögð niður fyrr á árinu, eftir að Hafliði Örn, betur þekktur sem Flati, hafði sjálfur fjármagnað deildina um tíma og fjöldi sjálfboðaliða hjálpuðu við að halda deildinni á lífi fyrir keppendur. 

Síðan breytti Riot Games reglugerðum sínum varðandi mótahöld í League of Legends sem gerði það að verkum að íslenska samfélagið tók höndum saman og skipaði nýja mótastjórn til þess að gæta senunnar á Íslandi og byggja hana upp.

Geta skráð sig strax

Nú eru keppendur sem hafa hug á að fleyta sér áfram í atvinnumennskunni á stærri vettvangi hvattir til þess að skrá sig í Norðurlandadeildina í League of Legends, NLC, og sem fyrr segir opnaði fyrir skráningu í hana í dag.

NLC samanstendur af mörgum riðlum og undirdeildum með liðum frá Norðurlöndunum, Bretlandi og Írlandi. Í kjarnann er NLC stökkpallur fyrir lið sem vilja klifra á toppinn í League of Legends. 

„NLC er vettvangur fyrir alla leikmenn í Bretlandi, Írlandi, Íslandi, Finnlandi, Noregi, Svíþjóð og Danmörku sem vilja keppa við aðra leikmenn á keppnisstigi. Öll lið fá tækifæri til þess að komast í deild á meðan tveggja daga kvörðunartímabili stendur í upphafi tímabilsins,“ segir um NLC.

Raðað í deildir eftir frammistöðu

Skráð lið byrja á að keppa í kvörðunartímabili sem fer fram í upphafi hvers leiktímabils, en leiktímabil NLC eru þrjú á ári hverju.

Að kvörðunartímabili loknu er liðum raðað upp í átta mismunandi undirdeildir NLC eftir árangri og frammistöðu á kvörðunartímabilinu.

Íslenska móta- og viðburðastjórn League of Legends aðstoðar lið og leikmenn við að skrá sig í NLC og mun einnig skapa umhverfi fyrir grasrótina til þess að spila og skemmta sér í leiknum. 

Sem þýðir að hversdagslegir LoL-leikmenn njóta stuðnings frá mótastjórn í formi ráðlegginga, viðburðarhalda og fleira. En lið eða leikmenn sem vilja spila í stærra keppnisumhverfi njóta einnig stuðnings frá mótastjórn.

Hægt er að nálgast mótastjórn á Discord-rás íslenska LoL-samfélagsins en samfélagið er einnig með Facebook-hóp sem á finna með því að fylgja þessum hlekk.

mbl.is