Norræn náttúra tekur á móti leikmönnum

Among the Trolls.
Among the Trolls. Grafík/Forbidden Studios

Nýr tölvuleikur, Among the Trolls, hefur verið kynntur af 505 Games, þar sem leikmenn spila í fyrstu persónu. Among the Trolls er sjálfsbjargar-, hasar- og hlutverkaleikur sem verður aðgengilegur á Steam.

Í Among the Trolls eru leikmenn settir í hlutverk Alex eða Önnu, sem koma til Finnlands frá Bandaríkjunum til þess að heimsækja ömmu sína og afa, sem búa í kofa í skóginum.

Fljótlega komast leikmenn að því að kofinn er yfirgefinn en þá hefst ævintýri í tengslum við finnskar þjóðsögur og æskuminningar um sumur sem varið var með ástvinum.

Finnskur skógur sem iðar af lífi

Leikmenn fara af stað og leita að ömmu sinni og afa. Í leiðinni læra þeir ýmislegt um það hvernig maður kemst af í skóginum. Verur úr finnskum þjóðsögum mæta leikmönnum á leiðinni en leikurinn býður upp á töfrandi kerfi sem fræðir leikmenn um Grit, Väki, og Lykky.

Um er að ræða sjálfsbjargarleik, þar sem leikmenn eru knúnir til þess að byggja og setjast að í skóginum. Jafnframt þurfa þeir að færa ýmsar fórnir til þess að verða sér úti um auðlindir eða efnivið.

Norræn náttúra tekur á móti leikmönnum

Útgefandinn segir á opinberri vefsíðu leiksins, að leikmenn gangi inn í „fallega hannaðan þrívíddarheim“ sem sameini „nostalgíu, undarleika, bæði nútímalegan og fornan hljóðfæraleik í bland við hljóð norrænnar náttúru sem muni vekja löngun leikmanna til að dvelja að eilífu á meðal tröllanna“.

Leikurinn er þróaður af sjálfstæða framleiðsluverinu Forbidden Studios. Það var stofnað af reyndum aðilum sem m.a. unnu að leikjum á borð við Skyrim og Fallout. Enginn staðfestur útgáfudagur hefur verið gefinn upp, en hægt er að setja leikinn á óskalistann sinn á Steam.

mbl.is