Nóg um að vera í Smash Bros á Íslandi

Super Smash Bros Ultimate.
Super Smash Bros Ultimate. Grafík/Nintendo

Bardagaleikjasamfélagið á Íslandi heldur áfram að eflast og er nóg um að vera fyrir Smash Bros-leikmenn næstu daga.

Næstkomandi sunnudag fer fram einskonar Smash Bros-hittingur á Selfossi, en þar býðst leikmönnum að hittast, spjalla og spila í félagsmiðstöðinni Zelsíus.

Slík kvöld eru haldin fyrir samfélagið og allir eru velkomnir, en þetta er kjörið tækifæri til þess að kynnast öðrum Smash Bros-leikmönnum og spila.

Hittast aftur í Kópavogi

Um það bil viku síðar, eða á fimmtudaginn 26. maí, fer fram sambærilegur viðburður í rafíþróttahöllinni Arena. Þá verður haldið samfélagskvöld þar sem leikmenn fá einnig tækifæri til að kynnast betur og etja kappi við hvort annað í leiknum eða æfa sig fyrir næsta mót.

Næsta mót í Super Smash Bros Ultimate fer fram nokkrum dögum síðar, á sunnudeginum 29. maí og verður keppt í Arena. Mótið er hluti af íslensku mótaröðinni Zoner's Paradise, en þar er keppt mánaðarlega.

Nánari upplýsingar um þetta og viðburði Smash Bros-samfélagsins á Íslandi má nálgast á Discord-rásinni Íslenska Smash Bros Discord.

mbl.is