Íslandsmeistarar krýndir um helgina

Frá vinstri til hægri: Kristófer Anton „Paxole“ Stefánsson / Emil …
Frá vinstri til hægri: Kristófer Anton „Paxole“ Stefánsson / Emil „EmilVald“ Valdimarsson / Brynjar Þór „BBRX“ Bergsson / Valdimar „Vaddimah“ Steinarsson / Brynjar Örn „BNZ“ Birgisson Ljósmynd/LAVA Esports

Úrslitahelgi Arena-deildarinnar er afstaðin. Eftir harða baráttu nokkurra af bestu liðum á Íslandi í tölvuleiknum Rocket League, hefur nýr Íslandsmeistari verið krýndur.

Í gær mættust LAVA Esports og Midnight Bulls í rafíþróttahöllinni Arena til þess að spila úrslitaviðureign mótsins.

Stór sigur fyrir LAVA

LAVA Esports átti vægast sagt góðan leik. Þegar liðið stóð upp frá tölvunni að viðureign lokinni, var staðan 5:0 LAVA í hag.

LAVA Esports hampaði því fyrsta sætinu og var jafnframt krýnt Íslandsmeistari í Rocket League þetta árið. Midnight Bulls náði öðru sæti. Þetta er í annað sinn sem LAVA hampar þessum titil, en liðið var Íslandsmeistari síðasta tímabils líka.

Rafík og Þór á Akureyri spiluðu einnig um þriðja sætið í gær, en þar mættust stálin stinn og eftir harða baráttu var staðan 4:3 fyrir Rafík, sem tryggði Rafík þriðja sætið á mótinu.

Mótinu var streymt frá Twitch-rás íslenska Rocket League-samfélagsins og á Stöð2 Esports, en hér má sjá úrslit viðureigna frá úrslitakeppninni.

Krefjandi en miklu betri upplifun

„Það var krefjandi að fara í annað umhverfi að spila, en það var mjög fljótt að venjast“ segir Brynjar Örn „BNZ“ Birgisson, leikmaður hjá LAVA Esports í samtali við mbl.is. Þetta var hans fyrsta LAN-mót.

„Það kom mér persónulega á óvart hvað það er gaman að spila á LAN-i, að vera við hliðina á liðsfélögunum, að hvetja hvern annan áfram og fagna mörkunum breytti algerlega upplifun manns af leiknum. Miklu betri upplifun, þetta var geggjuð tilfinning!“

Í samtali við mbl.is segir Brynjar Þór „BBRX“ Bergsson, þjálfari LAVA Esports, að strákarnir hafi unnið hart fyrir þessu og uppskorið eftir því.

„Það er alltaf gaman að vinna og sérstaklega þegar senan er jafn kappgjörn og hún er orðin. Strákarnir hafa unnið hart fyrir þessu og uppskeran er eftir því,“ segir Brynjar.

„Það er ótrúlegt að vera með fjóra bestu leikmenn landsins í sama liði þegar aðeins þrír eru inni á vellinum í einu. Við höfum passað upp á það að skipta mannskapnum reglulega inn á og út af. Strákarnir hafa sýnt fagmennsku og mikinn þroska þegar þeir þurftu að lúffa fyrir samherjum í byrjunarliðinu.“

Fleiri efnileg lið í senunni

Brynjar segir fleiri lið í senunni lofa góðu og eiga fyrir sér bjarta framtíð haldi þau rétt á spilunum. Hann hlakkar mikið til næsta tímabils og að sjá hvaða lið spreyta sig í Rocket League þá.

„Það eru nokkur lið í senunni sem eiga bjarta framtíð fyrir sér ef þau halda rétt á spilunum og verður gaman að fylgjast með hvernig þeim gengur í sumar, og hlakka ég mikið til að sjá hverjum verður stillt upp til leiks í fimmta tímabili.“

Óhætt er að segja að Rocket League-senan á Íslandi haldi áfram að stækka og er samkeppnin mikil en sex lið tóku þátt í úrslitakeppninni um helgina. Næsta tímabil fer fram í haust en enginn staðfestur dagur hefur enn verið gefinn upp.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert