Sumarnámskeið í rafíþróttum framundan

Rafíþróttaæfingar Breiðabliks fara fram í Arena.
Rafíþróttaæfingar Breiðabliks fara fram í Arena. Grafík/Breiðablik/Arena

Sumarnámskeið í rafíþróttum hjá Rafíþróttadeild Breiðabliks eru að fara af stað í rafíþróttahöllinni Arena. Þau eru hugsuð fyrir börn og unglinga á aldrinum sjö til fimmtán ára sem eru að stíga sín fyrstu skref í rafíþróttum.

Yfirþjálfari Arena mun sjá um alla þjálfun, en hann hefur mikla reynslu af rafíþróttum og hefur jafnframt séð um öll fyrri rafíþróttanámskeið í Arena.

Skráning er hafin og hafa um 80 börn og unglingar skráð sig nú þegar, en grunnatriði í rafíþróttum verða höfð að leiðarljósi ásamt því að hafa gaman í skemmtilegum hópi.

Þórir Viðarsson, yfirþjálfari rafíþrótta hjá Arena.
Þórir Viðarsson, yfirþjálfari rafíþrótta hjá Arena. Ljósmynd/Arena

Aukin félagsfærni og snerpa

„Við trúum því að rafíþróttir geti stuðlað að aukinni færni þeirra barna sem hana stunda. Rannsóknir sýna fram á aukna félagsfærni, þrautseigju og lausnamiðaða hugsun á meðal barna sem hafa stundað rafíþróttir,“ segir Þórir Viðarsson, yfirþjálfari Arena.

„Börnin læra jafnframt betri hegðun á internetinu, rétta líkamsbeitingu við tölvunotkun, mikilvægi andlegrar heilsu sem og þjálfun vöðvaminnis og snerpu.“

Námskeið í rafíþróttum hafa verið gríðarlega vinsæl og færst í aukana undanfarin misseri. Má nefna að uppselt var á bæði síðustu jóla- og páskanámskeiðin í Arena, en rafíþróttaæfingar snúa ekki aðeins að tölvuleikjaspilun.

Kynnast jafnöldrum með sömu áhugamál

„Í sumar munum við alls ekki bara hanga inni og spila tölvuleiki! T.d. byrjum við hverja æfingu á hreyfingu og ef veðrið er gott, þá munum við fara út og gera æfingar þar!“ segir Þórir en hvert námskeið er í fjóra eða fimm daga, og þá þrjá tíma í senn. En þá verður farið í allskonar leiki, bæði í tölvu og raunheimum.

Auk þess mun Þórir bjóða iðkendum í vettvangsferð, en þá verður heimsótt íþróttahús Breiðabliks með iðkendum og spilað m.a. frisbý-gólf.

Að lokum segir Þórir að mikilvægt sé fyrir börn að fara út úr sínu eigin herbergi og mæta rafíþróttaæfingar þar sem það hittir jafnaldra sína með sömu áhugamál og lærir heilbrigða spilun tölvuleikja undir stjórn þjálfara.

Skráningu á sumarnámskeiðin má finna með því að fylgja þessum hlekk.

mbl.is