Seinka útgáfu fram á næsta ár

Tchia frá Awaceb kemur út snemma á næsta ári.
Tchia frá Awaceb kemur út snemma á næsta ári. Grafík/Awaceb

Framleiðsluverið Awaceb hefur tilkynnt um seinkun á útgáfu tölvuleiksins Tchia, sem gerist í suðrænum opnum heimi.

Framleiðsluverið tilkynnti um seinkunina með tísti, en þar segir að leikurinn verði ekki gefinn út fyrr en snemma á næsta ári.

„Eftir þrjú ár full af ástríðu og erfiðisvinnu, skuldum við sjálfum okkur, og öllum sem hafa veitt okkur stuðning, það að skila af okkur eins góðum leik og við mögulega getum,“ segir í tísti um seinkunina.

„Þessi aukatími mun gefa okkur tækifæri á að fínpússa hvert smáatriði í leiknum og útfæra öll þau smáatriði sem við vitum að munu gera Tchia að virkilega sérstakri upplifun. Takk aftur fyrir ykkar stuðning. Við búum að fullt af spennandi hlutum til að sýna ykkur fram að útgáfu, svo fylgist með!“

Hoppa á milli sála

Tchia var kynntur á The Game Awards á síðasta ári og átti að koma út í vor. Leikinn verður hægt að spila á PlayStation og PC-tölvum.

Í Tchia eru leikmenn settir í hlutverk persónu í hjartnæmu ævintýri og fá að kynnast fjölbreyttum persónum sem innblásnar eru af ný-káladenskri menningu. 

Þar geta leikmenn hoppað á milli sála með „sálarhoppi“, en þá geta þeir stjórnað yfir 30 dýrum og hundruðum hluta sem finna má á eyjunni til þess að leysa þrautir og uppljóstra leyndarmálum.

mbl.is