Xbox-áskriftin veldur áhyggjum

Xbox Game Pass.
Xbox Game Pass. Grafík/Microsoft/Xbox

Fyrrverandi varaformaður leikjaútgáfu hjá Microsoft, Ed Fries, segir frá áhyggjum sínum af Xbox Game Pass-áskriftinni í nýlegum hlaðvarpsþætti.

Fries segist vera hræddur um að þjónustan gæti orðið til þess að fólk hætti að kaupa tölvuleiki, og greiði þess í stað mánaðarlegt áskriftargjald til þess að fá aðgang að þeim.

Hann ber þetta saman við Spotify og aukin tónlistarstreymi, en útkoman hefur ekki verið góð fyrir tónlistarmenn eða útgáfufyrirtæki. Segist hann hafa áhyggjur af því að framtíð tölvuleikjaiðnaðarins fari á sama veg.

Margt rætt í þættinum

Í hlaðvarpsþættinum Xbox Expansion fór Fries um víðan völl, en þar ræddi hann um fjölbreytt málefni varðandi Halo, leikjatölvuvandamálið í Japan og núverandi forstjóra Xbox, Phil Spencer.

Í lok þáttar var Fries spurður hvort hann myndi breyta einhverju í sambandi við núverandi stefnu Xbox. Þá minntist hann á að Game Pass-áskriftin væri það eina sem hann hafði áhyggjur af.

Spotify eyðilagt iðnaðinn

„Game Pass hræðir mig, vegna þess að það er til hliðstæður hlutur sem heitir Spotify og var hannaður fyrir tónlistariðnaðinn. Og þegar Spotify tók á skarið, eyðilagðist tónlistariðnaðurinn. Ég meina, það skerti bókstaflega árstekjur tónlistariðnaðarins um helming og er hannað svo að fólk einfaldlega kaupir ekki lög lengur,“ segir Fries.

„Svo við verðum að vera á varðbergi svo við búum ekki til sama kerfi í tölvuleikjaiðnaðinum. Ég meina, þessir markaðir eru viðkvæmari en fólk gerir sér grein fyrir. Ég elska Spotify sem kúnni, ég hef öll þau lög sem mig myndi nokkurn tíman girnast... Þetta er góður samningur fyrir kúnnann - en ekki endilega fyrir iðnaðinn.“



mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert