Kettir springa í lok mánaðar

Kettir springa á Netflix í enda maí þegar tölvuleikurinn Exploding …
Kettir springa á Netflix í enda maí þegar tölvuleikurinn Exploding Kittens kemur út á streymisveitunni. Grafík/The Oatmeal/Netflix

Fyrir um mánuði síðan tilkynnti streymisveitan Netflix um væntanlegan tölvuleik í gegnum veituna, þar sem kettir springa, en það er leikurinn Exploding Kittens - The Game. Nú hefur útgáfudagur leiksins verið staðfestur og gefinn upp.

Teiknimyndaröð í stíl

Exploding Kittens verður aðgengilegur Netflix-áskrifendum í lok mánaðar, eða þann 31. maí. Leikurinn verður ögn frábrugðinn núverandi útgáfum sem fást í vefverslunum Apple og Google, en á Netflix verða tvö sérstök spil í boði.

Boðið verður upp á spilun leiksins í gegnum Netflix en einnig verður boðið upp á sérstök spil innanleikjar sem byggð verða á væntanlegri Exploding Kittens-teiknimyndaröð sem fer af stað á næsta ári.

Stækkandi leikjasafn

Til viðbótar við Exploding Kittens voru þrír aðrir leikir settir upp á streymisveitunni nýlega, en það eru leikirnir Moonlighter, Townsmen - A Kingdom Rebuilt og Dragon Up. Þeir bættust við leikjasafnið síðastliðinn þriðjudag.

Þegar Exploding Kittens kemur út á Netflix, mun leikjasafn veitunnar búa að 22 tölvuleikjum.

mbl.is