Saga Gollris lítur dagsins ljós í haust

Aðdáendur Hringadróttinssögu geta sett sig í hlutverk Gollris í haust, en þann 1. september gefur framleiðsluverið Deadelic Entertainment út tölvuleik þar sem kynjaveran er í aðalhlutverki.

The Lord of the Rings: Gollum er sögudrifinn hasar- og ævintýraleikur þar sem leikmenn fá að bregða sér í gervi Gollris og eltast við það eina sem skiptir hann máli: djásnið.

Upplifa ósagða sögu Gollris

Gollrir er útsjónarsamur og slyngur en jafnframt tættur af tvískiptum persónuleika sínum og fá leikmenn að upplifa það frá fyrstu hendi.

„Einn hugur, tvö sjálf - þú ræður!“ segir á síðu leiksins á Steam.

„Hann er ómissandi í sögu J.R.R. Tolkien, en það hefur ekki verið sagt frá sögu Gollris í smáatriðum. Í The Lord Of The Rings: Gollum færð þú að upplifa þessa sögu. Frá þeim tíma þegar hann var þræll undir Myrka Turninum og fram að dvöl hans hjá álfum Myrkviðar.“

Togstreita innra með Gollri

Ákvarðanirnar sem leikmaður tekur innanleikjar hafa beinar afleiðingar fyrir persónuleika Gollris og veldur togstreitu á milli tveggja hliða hans, þ.e. þeirra Gollris og Smjagalls.

Til þess að lifa af þarf Gollrir að læðast, klifra og nota alla sína lævísi. Á leið sinni mun hann mæta nokkrum frægum persónum Hringadróttinssögu, auk nýrra og áður óþekktra andlita.

Leikinn verður hægt að spila á PlayStation, Xbox og PC-tölvum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert