Íslendingar skipa fyrsta norræna teymið

Frá vinstri: Guðjón Jósef „Guttyxx“ Baldursson, Guðbergur Jens „Giljagaur“ Haraldsson, …
Frá vinstri: Guðjón Jósef „Guttyxx“ Baldursson, Guðbergur Jens „Giljagaur“ Haraldsson, Sævar „Acedia“ Snorrason og Bjartur „Zakila“ Hafþórsson. Ljósmynd/Marta Baurska

Fjórir Íslendingar sem hafa verið að lýsa Overwatch-leikjum vöktu athygli á heimsvísu, en þeir skipa nú fyrsta norræna lýsendateymi OWEX.

OWEX er keppni sem byrjaði í Evrópu en hefur dreift úr sér yfir á aðrar heimsálfur líka, í raun má segja að OWEX sé keppni á milli landa í Overwatch. Íslenska landsliðið BMC tók þátt í OWEX á síðasta ári og náði góðum árangri þar, en liðið hampaði þriðja sætinu í allri Evrópu. 

Norrænar þjóðir markhópurinn

Íslensku lýsendurnir Guðbergur Jens „Giljagaur“ Haraldsson, Guðjón Jósef „Guttyxx“ Baldursson, Sævar „Acedia“ Snorrason og Bjartur „Zakila“ Hafþórsson fengu boð frá OWEX um að skipa fyrsta norræna lýsendateymið.

Þá munu þeir lýsa norrænum leikjum í OWEX og ráða sjálfir hvort þeir lýsi á íslensku eða ensku.

Sem fyrr segir hafa þeir reynslu af því að lýsa leikjum í Almenna Overwatch en hægt er að finna nokkra leiki sem þeir lýstu á YouTube-rás Almenna Overwatch.

„Ég veit að allir eru rosa spenntir fyrir þessu og við fáum að vita meira þegar nær dregur að haustinu og við megum velja hvort við ætlum að lýsa á íslensku eða ensku,“ segir Guðbergur í samtali við mbl.is.

„Við eigum eftir að ræða það frekar vegna þess að við erum semsagt fyrsta norræna teymið, og þá verður okkar markaðshópur skandinavíska samkvæmt þeim hjá OWEX.“

Stór mótaröð

OWEX er á vegum fyrirtækisins Elo Hell Esports, en það fyrirtæki sérhæfir sig í að halda keppnir á alþjóðamarkaið - þá sérstaklega í Overwatch, Valorant og League Of Legends.

Auk þess býr fyrirtækið að sínu eigin sjónvarpsteymi sem hefur undanfarin ár verið að sjá um útsendingar á Overwatch Contenders.

„Þetta mun opna svo mikla möguleika fyrir íslensk lið að taka þátt á erlendum markaði og sigurvegari Almenna mun eiga þann möguleika að taka þátt í playoffs fyrir næsta OWEX, en íslenska landsliðið BMC tóku þátt í seinasta móti og stóðu sig með prýði,“ segir Guðbergur.

Íslendingar hafi margt að bjóða rafíþróttum

Gæðastjóri Almenna á Íslandi, Björgvin Gunnar „Nak“ Björgvinsson, segir þetta vera stórt stökk fyrir Ísland og íslenskar rafíþróttir. Að þetta opni möguleikann á að „gera eitthvað meira“ og sýni fram á fjölbreytta hæfileika Íslendinga í rafíþróttum.

„Þetta opnar möguleikann á að gera eitthvað meira en bara að spila tölvuleiki fyrir rafíþróttir í heiminum,“ segir Björgvin í samtali við mbl.is.

„Þetta gefur til kynna að hæfileikar Íslands í heimi rafíþrótta liggi ekki bara í að spila tölvuleikina, heldur einnig sem lýsendur þessara leikja.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert