Óla með í söfnun fyrir fjölskyldur í Texas

Streymandinn Óla Blöndal mun taka þátt í góðgerðarstreymi þann 13. júní sem TheBrokeDadGaming blæs til í kjölfar skotárásarinnar í Texas.

Verður það nánast í beinu framhaldi af afmælisstreyminu hennar, sem fer fram þann 12. júní, en TheBrokDadGaming verður meðal gesta í því.

Persónulegt fyrir hann

TheBrokeDadGaming mun ásamt fleiri streymöndum safna fé til þess að styðja við þær fjölskyldur sem urðu fyrir áhrifum skotárásarinnar í grunnskólanum Uvalde í Texas.

„Hann og fjölskyldan hans búa ekki langt frá þar sem þetta gerðist, þannig að þetta fór alls ekki vel í hann,“ segir Óla um TheBrokeDadGaming í samtali við mbl.is og bætir við að náin vinkona hans hafði misst litla frænda sinn í árásinni.

Áhorfendahópurinn sameinaður

Óla mun koma fram í streyminu klukkan 17:00 á íslenskum tíma og vera í beinni í tvær klukkustundir. 

Streymið verður einskonar „boltastreymi“ þar sem hver streymandinn tekur við á eftir öðrum, en sú nálgun þekkist einnig sem „raid“ í streymisgeiranum.

„Hann byrjar þetta, og svo raidar hann næstu manneskju á listanum og svo koll af kolli,“ segir Óla og bendir blaðamanni á að „að raida sé að senda áhorfendur yfir á annan streymara“.

Hver leggur sitt af mörkunum

Óla er fjórði streymandinn í röðinni, sem að lokum endar aftur á TheBrokeDadGaming.

Allir streymandar á lista verða í beinni í tvær klukkustundir og sameinast þá áhorfendahópur allra streymanda. Þannig leggja þeir allir sitt af mörkum við söfnunina.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert